Körfubolti

Gummi Steinars vill ekki tjá sig um Twitter-málið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur í leik með Keflavík gegn FH árið 2012. Það var hans síðasta leiktíð með Keflavík.
Guðmundur í leik með Keflavík gegn FH árið 2012. Það var hans síðasta leiktíð með Keflavík. vísir/vilhelm

Keflvíska knattspyrnugoðsögnin Guðmundur Steinarsson vildi ekki ræða Twitter-málið er Vísir heyrði í honum í dag.

Tíst sem hann birti í gærkvöldi hleypti illa blóði í marga Njarðvíkinga. Nú í dag birti Víkurfréttir frétt um að knattspyrnudeild Njarðvíkur ætlaði að funda vegna ummælanna. Guðmundur er þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í fótbolta.

Sjá einnig: Þjálfari Njarðvíkinga segir veru Bonneau hér á landi vera mikið leikrit

Guðmundur vissi ekki af þessum fundi en sagði að knattspyrnudeildinni væri að sjálfsögðu frjálst að funda um það sem þeir vildi.

Sjálfur er hann í fríi með fjölskyldu sinni erlendis og kemur ekki heim fyrr en eftir tvo daga.

Guðmundur virtist hissa á þessu fjaðrafoki er Vísir heyrði í honum áðan en vildi ekki láta hafa neitt eftir sér um málið.

Flestir knattspyrnuáhugamenn þekkja til Guðmundar sem var frábær knattspyrnumaður á sínum tíma. Hann er bæði leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Keflavíkur.

Að neðan má sjá samskipti Guðmundar og Loga Gunnarssonar, leikmanns körfuknattleiksliðs Njarðvíkur, á Twitter í dag.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira