Innlent

Pólskunám við Háskóla Íslands á flug

Svavar Hávarðsson skrifar
Áhugi á pólskunámi kom þægilega á óvart.
Áhugi á pólskunámi kom þægilega á óvart. vísir/ernir
Tveimur byrjendanámskeiðum í pólsku við Háskóla Íslands hefur verið tekið afar vel og þrefaldaðist nemendafjöldinn á milli missera.

Um er að ræða tvö námskeið fyrir nemendur við skólann sem kennd eru á sex vikum. Það eru Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda sem standa að námskeiðunum í samvinnu við Háskólann í Varsjá og með styrk frá EFTA.

Einnig verður boðið upp á pólsku­námskeið á komandi haustmisseri og á vormisseri 2017.

Anna Rabczuk, nýprófessor við Háskólann í Varsjá, kom hingað til lands til að kenna á námskeiðunum. Hún segir í viðtali sem birt er á vef Háskólans að margt hafi komið henni á óvart. Nemendur séu betur að sér um Pólland og pólska menningu en hún bjóst við.

Anna segir að áhugi á pólskunámi sé augljós í sínum augum – Pólverjar séu stærsti minnihlutahópurinn á Íslandi og nemendurnir vilji tengjast pólska samfélaginu. Einhverjir eiga pólska nágranna, aðrir leggja stund á pólskunám vegna þess að þeir eiga pólskan maka og svo eru það þeir sem hafa einfaldlega mikinn áhuga á Póllandi.

Anna segir að Háskólinn geti stutt við bakið á pólska minnihlutanum á Íslandi með því að tryggja að boðið verði áfram upp á pólskunám við Tungumálamiðstöð skólans.

Stúdentum sem sýna náminu áhuga fer fjölgandi því að á fyrsta misseri skráðu tuttugu nemendur sig til þátttöku en á seinna misserinu voru þeir sextíu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×