Innlent

Vilja lausn á deilunni í Boðaþingi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm

Naustavör ætlar að stinga upp á lausn á deilum félagsins við leigutaka í Boðaþingi í Kópavogi. Íbúar þjónustuíbúða Naustavarar við Boðaþing í Kópavogi telja fyrirtækið hafa ofrukkað íbúa um húsgjöld um árabil.

Samkvæmt tilkynningu frá Naustavör, sem Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri skrifar undir, snýst deilan um 14 þúsund krónur á mánuði og þá einkum tiltekna kostnaðarliði.

„Í samræðum fulltrúa Naustavarar við stjórn íbúafélagsins í Boðaþingi hefur Naustavör freistað þess að útskýra fyrir stjórn íbúafélagsins hvers vegna innheimt er annars vegar fyrir húsaleigu og hins vegar húsgjald. Ástæðan er sú að Naustavör vill viðhafa sem skýrast gegnsæi í reikningsgerð sinni þannig að leigjendur geri sér fyllilega grein fyrir hvaða kostnaður liggur að baki húsgjaldinu. Kostnaðarliðirnir endurspegla þá þjónustu sem Naustavör stendur fyrir og liggur ljós fyrir gagnvart öllum sem vega og meta kosti þess og galla að undirrita leigusamning við félagið og flytja í Boðaþing.“

Enn fremur segir að ekki hafi gengið að jafna ágreininginn við íbúafélagið um þá lagalegu óvissu sem risin sé um rekstur sameignarinnar. Því hefur Naustavör ákveðið að stinga upp á að sérstakur rekstur sameignarinnar verði felldur niður og settur undir húsaleigu. Leigutökum verði svo boðinn nýr leigusamningur þar sem kostnaði við rekstur sameignar hafi verið bætt við fjárhæð húsaleigu.

Yfirlýsing frá Naustavör.

Í tilefni frétta Stöðvar 2, Fréttablaðsins og Vísis.is að undanförnu þar sem segir af deilum stjórnar íbúafélags í Boðaþingi í Kópavogi við Naustavör ehf., sem á og rekur sérhannaðar öryggis- og þjónustuíbúðir fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu, vill stjórn Naustavarar koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri:

Naustavör ehf. hefur í áratugi staðið fyrir nýjungum á sviði öldrunarmála á Íslandi í anda markmiða Sjómannadagsráðs. Félagið hefur aldrei myndað hagnað af rekstri. Hins vegar hefur ávallt verið gætt ráðdeildar og þess gætt að tekjur dugi fyrir útgjöldum. Af þeim sökum m.a. hefur Naustavör komist klakklaust í gegnum erfiða tíma í efnahagslífinu á liðnum áratugum. Gróðastarfsemi er ekki og hefur aldrei verið markmið Sjómannadagsráðs.

Deilan snýst um greiðslu húsgjalds, 14 þúsunda króna á mánuði, og þá einkum tiltekna kostnaðarliði í þeirri fjárhæð. Í samræðum fulltrúa Naustavarar við stjórn íbúafélagsins í Boðaþingi hefur Naustavör freistað þess að útskýra fyrir stjórn íbúafélagsins hvers vegna innheimt er annars vegar fyrir húsaleigu og hins vegar húsgjald. Ástæðan er sú að Naustavör vill viðhafa sem skýrast gegnsæi í reikningsgerði sinni þannig að leigjendur geri sér fyllilega grein fyrir hvaða kostnaður liggur að baki húsgjaldinu. Kostnaðarliðirnir endurspegla þá þjónustu sem Naustavör stendur fyrir og liggur ljós fyrir gagnvart öllum sem vega og meta kosti þess og galla að undirrita leigusamning við félagið og flytja í Boðaþing.

Í áliti kærunefndar húsamála, sem er álitsgjafi en ekki úrskurðarnefnd, er komist að þeirri niðurstöðu að Naustavör njóti ekki undanþágu samkvæmt húsaleigulögum til að innheimta kostnað vegna sameignar með þeim hætti sem gert hefur verið. Naustavör beri að fella kostnaðinn undir húsaleiguna. Þessu eru lögmenn Naustavarar algerlega ósammála, en þar sem nefndin er einungis álitsgjafi verður ekki skorið úr deiluefninu nema fyrir dómstólum. Óháð því hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér breytist ekki sú staðreynd að áfram þarf að reka sameign hússins í samræmi við það þjónustustig sem Naustavör stendur fyrir. Félagið hefur ekki í hyggju að skerða öryggi eða þjónustu við íbúa.

Í gildi er leigusamningar milli sérhvers leigutaka og Naustavarar þar sem samþykkt er að greiða húsgjald og húsaleigu eins og tilgreint er í samningunum. Félagið telur sig ekki geta vikið frá þeirri afstöðu sinni að ómögulegt sé að skerða tekjugrunn Naustavarar með lækkun leigugjalda og tefla með því fjárhagslegri framtíð félagsins í hættu.

Ekki hefur reynst unnt að jafna ágreining við íbúafélagið um þá lagalegu óvissu sem risin er um rekstur sameignarinnar. Naustavör mun hér eftir sem hingað til standa vörð um fjárhagslega framtíð félagsins, ekki síst með hagsmuni leigutaka að leiðarljósi. Í samræmi við það sem hér hefur komið fram kann að vera að farsælast sé að leysa ágreininginn með eftirfarandi hætti: Sérstakur rekstur sameignar verði felldur niður og settur undir húsaleigu í samræmi við álit kærunefndar. Í kjölfarið verði öllum leigutökum boðinn nýr leigusamningur þar sem kostnaði við rekstur sameignar hefur verið bætt við fjárhæð húsaleigu.

Þennan möguleika mun stjórn Naustavarar m.a. fjalla nánar um á næsta fundi sínum fljótlega eftir páska.

Með vinsemd og virðingu,
Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Naustavarar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira