Erlent

Afgerandi sigrar Sanders í Alaska og Washington

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigur Bernie Sanders í Washington-ríki þykir sérstaklega mikilvægur fyrir áframhaldandi kosningabaráttu hans.
Sigur Bernie Sanders í Washington-ríki þykir sérstaklega mikilvægur fyrir áframhaldandi kosningabaráttu hans. Vísir/Getty

Bernie Sanders sigraði örugglega í forkosningum Demókrata í Alaska og Washington-ríki á sem haldnar voru á laugardag. Sigurinn er talinn lífsnauðsynlegur fyrir kosningabaráttu Sanders eftir góða sigra Hillary Clinton að undanförnu.

Sigur Sanders var afgerandi. Í Alaska fékk Sanders um 80 prósent atkvæða en 73 prósent í Washington-ríki. Einnig er kosið í Hawaii en kosning þar var ekki hafin þegar þessi frétt var skrifuð.

Clinton er með um 300 kjörmanna forskot á Sanders og því lagði öldungardeildarþingmaðurinn frá Vermont mikla áherslu á kosningarnar í Washington-ríki enda stuðningur 118 kjörmanna undir.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um forkosningarnar í Bandaríkjunum

Fyrir kosningarnar í ríkjunum þremur var Sanders með 920 kjörmenn gegn 1.223 kjörmönnum Clinton. Séu hinir svokölluðu ofurkjörmenn taldir með er Clinton hinsvegar með afgerandi forystu, 1.692 gegn 949. Með sigrum Sanders í Washington og Alaska nær hann loks að skríða yfir 1.000 kjörmanna múrinn og saxa lítið eitt á forskot Clinton.

Sanders er enn sigurviss þó að hann þurfi að sækja á Clinton sem í auknum mæli er farinn að undirbúa kosningabaráttu sína gegn frambjóðenda Repúblikanaflokksins, hljóti hún útnefningu Demókrataflokksins.

Næst verður kosið í Wisconsin þann 5. apríl næstkomandi þar sem 96 kjörmenn eru undir.


Tengdar fréttir

Áhrifarík úrslit í kosningum

Clinton og Trump báru sigur úr býtum í forvalskosningum í fimm fylkjum Bandaríkjanna á þriðjudaginn. Í kjölfarið dró Marco Rubio sig út úr forsetaslagnum.

Trump segir Sanders bera ábyrgð á ofbeldi á framboðsfundum

Donald Trump, frambjóðandi í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, segir að óeirðirnar sem brutust út á framboðsfundi hans í Chicago síðastliðið föstudagskvöld og á laugardaginn séu Bernie Sanders, frambjóðanda í forvali demókrata, að kenna.

Óvænt úrslit í Michigan opna allt upp á gátt

Trú manna á skoðanakönnunum í forkosningum bandarísku flokkanna hefur minnkað nokkuð, eftir að óvæntustu úrslit síðustu áratuga urðu á þriðjudaginn. Sanders hafði þá betur á móti Clinton.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira