Innlent

Bragi Ásgeirsson látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Bragi Ásgeirsson.
Bragi Ásgeirsson.

Bragi Ásgeirsson, myndlistarmaður, kennari, listrýnir og greinahöfundur, lést á föstudaginn. Hann var 84 ára gamall. 

Bragi fæddist í Reykjavík þann 28. maí árið 1931. Hann var við nám í Handiðaskólann í Reykjavík 1947-50 og við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 50-52. Þá lærði hann grafík við Listiðnaðarskólann í Ósló 52-53. Hann var einnig við nám í módelteikningu við Accademia di Belle Arti við via Margutta í Róm.

Hann fór svo aftur í Listaháskólann í Kaupmannahöfn 55-56 þar sem hann lærði grafík.

Á árunum 1956-58 kenndi hann grafík við Myndlista og handiðnaskóla Íslands. Árið 1960 hóf hann aftur kennslu eftir eins árs nám við Listaháskólann í München. Árið 1966 gerðist Bragi listgagnrýnandi Morgunblaðsins.

Bragi hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir list sína. Hann var fulltrúi í alþjóðlegri nefnd Tvíæringsins í Rostock á árunum 1967-81. Þar hlaut hann Pablo Neruda-friðarpeninginn og medalíu Eystrasaltsvikunnar. Þá hlaut hann viðurkenningu fyrir grafík á sýningu í Kraká árið 1971, Edvard Munch styrkinn árið 1977, starfsstyrk íslenska ríkisins 1978-79.

Hann var borgarlistarmaður Reykjavíkur 1981-82 og seinna árið hlaut hann einnig Bröste-bjartsýnisverðlaunin. Hann var kjörinn heiðursfélagi félagsins í íslenskri grafík árið 1983. Þá var Bragi sæmdur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu listar og menningar árið 2001.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira