Innlent

Þrjú þúsund krefjast afsagnar Sigmundar Davíðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir/Ernir
Rúmlega þrjú þúsund manns hafa skrifað undir í undirskriftarsöfnun þar sem þess er krafist að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér sem forsætisráðherra og þingmaður vegna Wintris-málsins.

Undirskriftasöfnunin var sett af stað í gær og hafa 3.112 skrifað undir á rúmlega sólarhring. Í lýsingu undirskriftarsöfnunarinnar segir að Sigmundur Davíð hafi gerst sekur um alvarlegan siðferðisbrest vegna aflandsfélags eiginkonu sinnar, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, Wintris inc.

Eftir að forsætisráðherrafrúin upplýsti á Facebook að hún væri eigandi félagsins Wintris á Bresku-Jómfrúreyjum sem hefði lýst 523 milljóna króna kröfu í slitabú föllnu bankana hefur umræðan meðal annars snúist um hvort forsætisráðherra hafi átt hagsmuna að gæta þegar stjórnvöld leystu úr málefnum slitabúanna.

Sjá einnig: Segja Wintris ekki hafa verið í skattaskjóli

Í lýsingu undirskriftasöfnunarinnar er því haldið fram að Sigmundur Davíð hafi verið vanhæfur til þess að leysa úr málefnum slitabúanna og að hann hafi ákveðið að „halda leyndu fyrir kjósendum þeim fjárhagslegum hagsmunum sem eiginkona hans á í svokölluðu erlendu skattaskjóli, sem má ætla að séu einnig hans eigin hagsmunir t.d. út frá lögum um hjúskap.“

Mikill styr hefur staðið um málið frá því að upp um það komst og heimildir Fréttablaðsins herma að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræði sín á milli hvort styðja eigi hugsanlegt vantraust á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna eigna eiginkonu hans á Bresku Jómfrúreyjum.

Sjá einnig: Segir stöðu sína aldrei hafa verið sterkari

Sigmundur Davíð segir sjálfur að það hefði orkað mjög tvímælis siðferðilega ef hann hefði gert kröfuhöfum og öðrum grein fyrir því að eiginkona sín ætti inni pening hjá föllnu bönkunum. Sigmundur og eiginkona hans Anna S. Pálsdóttir, hafa birt samantekt um erlenda félagið Wintris á bloggsíðu Sigmundar.

Sigmundur Davíð segir einnig að staða sín hafi aldrei hafa verið sterkari en nú. Hann segist ekkert rangt hafa gert. Þá vonast hann til þess að stjórnarandstaðan guggni ekki á að leggja fram vantrauststillögu á þinginu. Hann hlakki til þess og óttist ekki slíka tillögu.

Umfjöllun Stöðvar 2 um málið má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan


Tengdar fréttir

Þingmenn ræða vantraust á Sigmund

Formaður Bjartrar framtíðar segir koma til greina að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra. Ástæðan er upplýsingar sem birtust um fjármál eiginkonu ráðherrans í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×