Fótbolti

Matthäus: Enska landsliðið getur orðið eitt af þeim bestu í heiminum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ensku leikmennirnir fagna sigurmarki Erics Dier gegn Þýskalandi í gær.
Ensku leikmennirnir fagna sigurmarki Erics Dier gegn Þýskalandi í gær. vísir/getty

England getur orðið eitt landsliðum heims innan þriggja ára. Þetta segir Lothar Matthäus, fyrrverandi fyrirliði þýska landsliðsins.

Englendingar komu til baka og unnu 2-3 sigur á heimsmeisturum Þjóðverja í vináttulandsleik í gær og Matthäus var afar hrifinn af leik enska liðsins.

„Þjóðverjar eru ekki sáttir við þessi úrslit,“ sagði Matthäus sem tók þátt í að greina leikinn á ITV ásamt Ian Wright og Lee Dixon.

„En við verðum að átta okkur á því að England spilaði betur en Þýskalandi og þá sérstaklega í seinni hálfleik.“

England tefldi fram ungu og reynslulitlu liði í gær og Matthäus segir að landsliðsþjálfarinn Roy Hodgson eigi að halda áfram að veðja á ungu leikmennina.

„England kom mér mikið á óvart. Leikmennirnir eru ungir en þeir vilja vinna og leggja sig fram fyrir þjóðina,“ sagði Matthäus sem var fyrirliði Vestur-Þjóðverja þegar þeir urðu heimsmeistarar árið 1990.

„Ég vona að þjálfarinn sjái það líka og haldi áfram að spila á þessum leikmönnum til byggja upp gott lið fyrir næstu stórmót.

„Þetta lið á mikla möguleika, allavega miðað við frammistöðuna gegn Þýskalandi, að verða eitt af bestu liðum heims innan þriggja ára.“

Englendingar taka á móti Hollendingum í vináttulandsleik á Wembley á þriðjudaginn.

Matthäus lék 150 landsleiki á sínum tíma og skoraði 23 mörk. vísir/getty

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira