Formúla 1

Bandaríski kappaksturinn fer fram og Taylor Swift kemur fram

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Daniel Ricciardo veður polla á Red Bull bílnum í fyrra, í bakgrunn má sjá tómlega stúkuna.
Daniel Ricciardo veður polla á Red Bull bílnum í fyrra, í bakgrunn má sjá tómlega stúkuna. Vísir/Getty
Framkvædastjóri Circuit of the Americas brautarinnar í Austin Texas, hefur staðfest að Formúlu 1 keppni mun fara fram á brautinni í ár.

Bobby Epstein, framkvæmdastjóri brautarinnar hafði sagt undir lok síðasta árs að framtíðin væri ekki björt. Slök miðasala og vont veður í fyrra var mikill skellur fyrir fjárhag brautarinnar.

Í ofanálag minnkaði fylkið sinn stuðning við rekstur brautarinnar mikið. Á opinberu keppnisdagatali frá FIA var kappaksturinn í Texas sagður bíða staðfestingar.

Nú hefur verið staðfest að keppnin mun fara fram helgina 21. - 23. október.

„Við erum mjög glöð með það að geta tilkynnt endurkomu Formúlu 1,“ sagði Epstein.

„Síðan fyrsta keppnin fór hér fram 2012 hefur orðið til gríðarlega verðmæt þekking og innsýn sem hefur gert okkur kleift að halda stöðugum framförum áfram og við höfum trú á að við höldum áfram að láta bandaríska kappaksturinn standa upp úr sem keppnishelgi á tímabilinu,“ bætti Epstein við.

Af því tilefni að Formúla 1 er að koma fimmta árið til Austin mun Taylor Swift halda tónleika á laugardagskvöldinu, eftir tímatökuna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×