Körfubolti

Mitt erfiðasta ár hjá Drekunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. vísir/daníel
Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir sænska úrvalsdeildarfélagið Sundsvall Dragons, sem landsliðsmaðurinn Hlynur Bæringsson leikur með. Liðið tapaði í ofanálag sjö af síðustu átta leikjum sínum í deildarkeppninni sem er heldur dapurt veganesti fyrir úrslitakeppnina sem hefst um helgina.

„Einfaldasta útskýringin er bara sú að við höfum verið lélegir,“ sagði Hlynur í samtali við Fréttablaðið í gær en hann missti af síðasta leik tímabilsins vegna smávægilegra meiðsla. Leikurinn var þýðingarlaus fyrir bæði lið en hann var sá eini sem Sundsvall vann síðustu vikur tímabilsins.

Fyrir utan slæmt gengi komst félagið í fréttirnar ytra vegna fjárhagsvandræða. Félagið gat til að mynda ekki staðið við greiðslu til sænska körfuknattleikssambandsins sem bannaði félaginu að nota erlenda leikmenn sína í einum leik.

Vandamálin í sviðsljósinu

„Þegar þetta mál rataði í blöðin þá fór athyglin á aðra hluti en hún átti að vera á,“ segir Hlynur sem hefur þó ávallt fengið sín laun greidd hjá félaginu þrátt fyrir slæma skuldastöðu þess. „Þetta hefur alltaf skilað sér til mín að lokum og ég vona að það verði áfram þannig,“ segir Hlynur sem hefur þó skilað sínu að venju í vetur. Hann er með flest fráköst allra leikmanna í deildinni að meðaltali í vetur eða 10,0.

Leikmannahópur Sundsvall ber þess merki að félagið á í rekstrarvandræðum og er liðið ekki jafn sterkt og undanfarin ár. Hlynur, sem er á sínu sjötta tímabili hjá félaginu, viðurkennir að þetta ár hafi verið erfitt.

„Það má alveg segja að þetta ár hafi verið það erfiðasta hjá mér. Það hefur líka verið allt öðruvísi en fyrri ár. Bæði er liðið ekki jafn gott og þá eru engir aðrir Íslendingar hér, eins og hefur alltaf verið,“ segir Hlynur en Jakob Þór Sigurðarson var lengi liðsfélagi hans hjá Drekunum en einnig Ægir Þór Steinarsson, Pavel Ermolinskij og Ragnar Ágúst Nath­anaelsson.

Jakob er enn í Svíþjóð en spilar nú með Borås Basket sem endaði í fjórða sæti deildarinnar.

Hlynur í leik með Sundsvall.vísir/valli
Sér ekki eftir fimm ára samningi

Hlynur gerði fimm ára samning við Sundsvall í sumar og hann sér þrátt fyrir allt ekki eftir því í dag.

„Ég vissi hvað ég var að fara út í. Þetta eru líka vandamál tengd körfuboltanum sem eru um tveir klukkutímar af mínum degi. Mér líður vel í Sundsvall og fjölskyldunni líka, þó svo að það sé þreytandi að standa í svona löguðu. Ég viðurkenni það.“

Hann segir að hann hafi ákveðið að taka langtímasamning með þeim kostum og göllum sem honum fylgir, enda ekki algengt að 33 ára körfuboltamenn fái svo langa samninga. Hann sé því hins vegar viðbúinn að félagið gæti hugsanlega tekið til í herbúðum sínum í sumar í ljósi fjárhagsstöðunnar.

„Það kæmi ekki á óvart enda hefur nú þegar verið skorið heilmikið niður. Það gæti verið að sú vinna haldi áfram næsta sumar. Ég held þó að þeir vilji halda mér og ég er jú með samning sem ætti að tryggja það að ég verði áfram.“

Sundsvall Dragons hefur keppni í úrslitakeppninni á morgun þegar liðið mætir Norrköping Dolphins. Hlynur segir að þessi langa taphrina hafi verið slæm, eins og gefur að skilja.

Getum vel unnið Norrköping

„Sumir þessara leikja voru mjög daprir, gegn liðum sem við áttum að vinna. Það var það versta. Það vantaði ákefð og hungur í liðið,“ segir Hlynur sem vill þó ekki afskrifa möguleika Sundsvall gegn Norrköping.

„Norrköping hefur verið í basli vegna meiðsla. Þetta er gott lið en ég vona að þeir verði ekki upp á sitt allra besta. Ef við náum upp okkar spili á ný getum við vel unnið þetta lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×