Innlent

Veðrið mun í fyrsta lagi ganga niður um klukkan eitt í nótt

Birgir Olgeirsson skrifar
Vindaspá sem sjá má á vef Veðurstofu Íslands.
Vindaspá sem sjá má á vef Veðurstofu Íslands. Vísir/vedur.is
Ekki er búist við að vindur gangi niður á suðvestanverðu landinu fyrr en eftir klukkan eitt í nótt. Fyrir norðan gengur vindur niður eftir því sem á líður nóttina en búast má við komið verður ágætis veður á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið en veður verður áfram vont á Tröllaskagasvæðinu fram að hádegi á morgun.

Síðdegis á morgun verður hins vegar orðið ágætis veður um allt land.

Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast vegna veðurs í kvöld en um hefðbundin óveðursverkefni hefur verið að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur meðalvindhraði farið mest upp í 37 metra á sekúndu í Litlu Ávík á Ströndum í kvöld. Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að fárviðri miðast við 32,7 metra á sekúndu. Þá fýkur allt lauslegt, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Geta kyrrstæðir bílar oltið eða fokið og heil þök tekur af húsum.

Þessa stundina er veður afar slæmt á svæðinu norður af Snæfellsnesi og vestan Eyjafjarðar. Vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir veður slæmt í Fljótunum, á Siglufjarðarvegi, í Húnavatnssýslu, Skagafirði, Vestfjörðum, Breiðafjarðarsvæðinu og norðanverðu Snæfellsnesi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×