Erlent

Hótar frekari kjarnorkutilraunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-Un fylgist með eldflaugaskoti.
Kim Jong-Un fylgist með eldflaugaskoti. Vísir/EPA

Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur boðað frekari tilraunir með kjarnorkuvopn. Einungis nokkrar vikur eru síðan Sameinuðu þjóðirnar hertu viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu verulega vegna kjarnorkutilrauna þeirra. Hann segir markmið tilraunanna vera að tryggja framþróun langdrægra kjarnorkuflauga þeirra.

Þar að auki er haft eftir einræðisherranum á ríkismiðli landsins að vísindamönnum Norður-Kóreu hafi tekist að framkvæma svokallað „re-entry“ kjarnorkuvopns á rannsóknarstofu. Það er endurkoma kjarnorkuvopns af braut um jörðu og aftur í gufuhvolfið.

Kóreumenn segjast hafa getað minnkað kjarnorkuvopn svo það kæmist fyrir í eldflaug. Vísir/EPA

Við slíkar kringumstæður þurfa kjarnorkuvopn að þola gífurlegan hita og hristing og jafnframt hitta skotmark sitt. Sé þetta rétt er um stórt skref að ræða í þróun kjarnorkuvopna í Norður-Kóreu og gætu þeir ógnað gervöllu meginlandi Bandaríkjanna.

Vitað er til þess að Norður-Kórea búi yfir kjarnorkuvopnum en burðir þeirra til að skjóta þeim á loft með eldflaugum hafa verið dregnir í efa af sérfræðingum. Fjölmargar hótanir hafa borist frá Norður-Kóreu undanfarnar vikur vegna áðurnefndra viðskiptaþvingana og heræfinga Bandaríkjanna og Suður-Kóreu.

Þá hefur einnig verið dregið í efa að þeir geti minnkað kjarnorkuvopn svo mikið að það passi í eldflaug og gæti þolað „re-entry“. Norður-Kóreumenn segja hins vegar að það vopn sé til og hér til hliðar má sjá mynd af því.

Enska útgáfu af ríkismiðli Norður-Kóreu má finna hér, en tilkynningin sem um ræðir er ekki komin þar inn.


Tengdar fréttir

Hóta aftur kjarnorkuárásum

Sérfræðingar draga í efa að Norður-Kórea búi yfir kunnáttu til að koma kjarnorkuvopnum fyrir á eldflaugum.

Kim Jong-un setur kjarnavopnin í viðbragðsstöðu

Kim Jong-un, leiðtogi Norður Kóreu, segir að kjarnorkuvopn ríkisins ættu að vera til taks hvenær sem er. Leiðtoginn ávarpaði æðstu menn hersins í gær þar sem hann skipaði þeim að breyta skipulagi sínu á þann veg að Norður Kórea geti skotið á loft kjarnorkusprengju í fyrirbyggjandi tilgangi eins og hann orðaði það. Frá þessu greinir ríkisfréttastofa landsins.

Gætu fljótlega framleitt plútóníum

Bandaríska leyniþjónustan telur að stjórnvöld í Pjongjang hafi endurræst kjarnaofn sem hefur burði til að framleiða plútóníum í kjarnorkuvopn. Norður-Kóreumenn lýstu því yfir í september að kjarnorkuverið í Jongbjon hefði verið endurræst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira