Innlent

Hrafni gert að hypja sig með sitt frá Elliðavatni

Jakob Bjarnar skrifar
Húsið, Hrafn, Jón Steinar og Eiríkur. Hrafn vildi fá að byggja við sumarhús sitt við Elliðavatn en svarið sem hann fékk var þvert nei, og það sem meira er: Honum er gert að hafa sig á brott. Til stendur að brjóta húsið niður.
Húsið, Hrafn, Jón Steinar og Eiríkur. Hrafn vildi fá að byggja við sumarhús sitt við Elliðavatn en svarið sem hann fékk var þvert nei, og það sem meira er: Honum er gert að hafa sig á brott. Til stendur að brjóta húsið niður. visir/vilhelm o.fl.
Aðalmeðferð í máli Hrafns Gunnlaugssonar á hendur Orkuveitu Reykjavíkur verður undir lok mánaðar, en Orkuveitan vill Hrafn og sumarbústað hans í burtu frá Elliðavatni.

Málið snýst um sumarbústað í hans eigu, sem stendur við Elliðavatn. Haustið 2014 óskaði Hrafn eftir því að fá að byggja við bústaðinn en svörin voru heldur á aðra leið en hann hafði vænst. Honum var sagt að hypja sig, ekki standi til að veita nein byggingarleyfi til viðbyggingar. Fulltrúi OR, Elín Smáradóttir lögfræðingur, bauðst ekki til að greiða fyrir húsið; til stendur að brjóta steinhúsið niður.

Hrafn sagðist ekki vilja tjá sig mikið um málið, vildi heldur að lögmaður hans, Jón Steinar Gunnlaugsson, gerði það. Sagði þó að þetta væri sumarbúastaður, „geysilega fallegt steinhús“ sem móðir hans heitin, Herdís Þorvaldsdóttir leikkona, hefði átt og lagt mikla rækt við. Hann hafi svo erft húsið, hann ætti fjölskyldu sem þyrfti meira pláss en ein kona – móðir hans. Ekki hafi staðið til að byggja mikið við húsið, þetta væri innan byggingarreitsins sem ekki væri nýttur nema að 60-70 prósentum.

Einkavegur liggur að húsi Hrafns við Elliðavatn, en þar hefur móðir hans heitin, Herdís Þorvaldsdóttir, stundað mikið skógræktarstarf.visir/vilhelm
Herdís Þorvaldsdóttir var mikil uppgræðslukona, hún hefur gróðursett trjám á svæðinu. Húsið er fallegt, stendur út í Elliðavatnið en að sögn Hrafns er þetta lagt upp sem opið landsvæði, þarna geti hver sem er farið um og jafnvel veitt án athugasemda í vatninu. Hrafn sagði einstakling eiga erfitt með að bera hönd yfir höfðuð sér gegn lögfræðingum opinberrar stofnunar á fullum launum.

Nýtt hús reist í kjölfar bruna

Jón Steinar útskýrði málið betur; þetta snúast um sumarbústað sem byggður var í kringum 1960 á lóð sem er þannig til komin að Þórður Sveinsson, afi Hrafns, skrifaði undir afsal til bæjarstjórnar Reykjavíkur á 7/8 hlutum jarðarinnar Elliðavatn. Í því afsali séu skilmálar fyrir afhendingunni meðal annars sá að eftir stæði réttur, einn hektari til að byggja sumarhús. Og hefði hann afnotin meðan hann lifði. Sumarhúsið var svo reist á grundvelli þess samnings. Þegar Gunnlaugur, faðir Hrafns féll urðu Hrafn og Herdís eigendur, og svo Hrafn einn eftir fráfall Herdísar.

Hús Hrafns er að sönnu glæsilegt, um 140 fermetra stórt og stendur út í vatnið. Þarna segir Hrafn að öllum sé frjálst að fara um.visir/vilhelm
Í febrúar 2004 gerist það svo að húsið brennur. Þá var fengið leyfi hjá Reykjavíkurborg til að byggja þar nýtt steinhús. Herdís taldi, og tók fram í bréfaskiptum óskir um að framlengdur yrði rétturinn til byggingar hússins, og því var aldrei synjað, en OR var þá orðin eigandi lóðarinnar.

Vill fá ótímabundinn afnotarétt

„Hún steypti upp hús, tugmilljóna virði uppreiknað, svo kemur allt í einu núna upp, eða haustið 2014, eftir að Hrafn óskaði eftir að byggja viðbyggingu, að honum var sagt að hypja sig. OR tilkynnir honum að ekki standi til að veita byggingaleyfi til viðbyggingar. Bjóðast ekki einu sinni til að kaupa af honum húsið, heldur vilja brjóta niður húsið,“ segir Jón Steinar.

Um þetta stendur deilan. Jón Steinar segir að sett sé fram krafa um ótímabundinn afnotarétt en til vara 75 ára réttur. „Ljóst er að Herdís var orðin fullorðin kona og aldrei hefði verið ráðist í þessa byggingu nema í þeirri trú að henni yrði leyft að vera þarna áfram,“ segir lögmaðurinn – enginn kostur hafi verið annar í stöðunni en fá þetta mál útkljáð fyrir dómsstólum.

Til stendur að brjóta húsið niður. Upphaflega stóð til að eigendur sjálfir stæðu straum að þeim kostnaði, en nú býðst OR til þess að mæta þeim kostnaði.visir/vilhelm
Jón Steinar segist gera ráð fyrir því að OR vísi til þess að eitt skuli yfir alla ganga, en fleiri bústaðir eru á svæðinu, en þessi bústaður sé einstakur bæði sögulega auk þess sem hann er sá langnýjasti á svæðinu.

Hrafni boðin sömu kjör og öðrum

Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi OR bendir á ítarlega umfjöllun í Fréttablaðinu frá í september í fyrra, þar sem haft er eftir Bjarna forstjóra Bjarnasyni, hvað varðar notkun frístundahúsa á vatnsverndarsvæðunum: „Við viljum ekki og ætlum ekki að ganga fram með offorsi en okkar framtíðarsýn í vatnsvernd er skýr og henni munum við fylgja.“

Hvað afnot af þessari tilteknu lóð varðar og nú er deilt um fyrir dómsstólum „þá lítur OR svo á að sá tímabundni afnotaréttur sem Þórður læknir á Kleppi fékk fyrir sig og sín börn þegar hann seldi jörðina sé runninn út. Þórður sjálfur féll frá 1946 og það af börnum hans sem lengst lifði lést 2013. Hrafni hafa verið boðin sömu kjör og öðrum á svæðinu, það er tímabundin afnot og OR býðst til að fjarlægja húsin á sinn kostnað að afnotum loknum.“ segir Eiríkur.


Tengdar fréttir

Eigendur bústaða ætla ekki að víkja

Lögmaður eigenda sumarbústaða við Elliðavatn segir geðþótta og duttlunga ráða för í í þeirri stefnu Orkuveitu Reykjavíkur að byggðin verði rifin. Það yrði skipulagslegt stórslys og borgaryfirvöldum til háðungar.

Vonast eftir sátt við Elliðavatn

Orkuveita Reykjavíkur bindur vonir við að sátt náist við eigendur sumarhúsa sem fyrirtækið vill að hverfi af leigulóðum á landi hennar við Elliðavatn. Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu sendi lögmaður hluta húseigendanna Orkuveitunni bréf þar sem kröfum og sjónarmiðum fyrirtækisins er hafnað.

OR hefur sjálf niðurrif Elliðavatnshúsa

Sumarhús á landi Orkuveitunnar við Elliðavatn munu þurfa að víkja í samræmi við leigusamninga sem gerðir voru 2004 og runnu út í árslok 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×