Fótbolti

City gerði það sem þurfti og komst í átta liða úrslit í fyrsta sinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Yaya Touré í baráttunni í kvöld.
Yaya Touré í baráttunni í kvöld. vísir/getty
Það var ekki fallegt en dugði til. Manchester City er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir markalaust jafntefli gegn Dynamo Kiev frá Úkraínu í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum keppninnar.

City-liðið vann alla vinnuna í fyrri leiknum í Kænugarði þar sem það vann flottan 3-1 sigur og því var verkefnið nær ómögulegt fyrir Dynamo í kvöld.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Manchester City sem liðið kemst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar en það gerðu City-menn í fjórðu tilraun. Liðið komst í 16 liða úrslit í fyrra en komst ekki upp úr riðlinum í fyrstu tvö skiptin sem það komst í Meistaradeildina.

Heimamenn urðu þó fyrir áfalli á þessu annars gleðikvöldi því fyrirliðinn og miðvörðurinn Vincent Kompany fór af velli meiddur. Hann meiddist á kálfa sem er nú ekki í fyrsta sinn sem það gerist á hans ferli.

Vonandi fyrir bláliða í Manchester-borg verður hann ekki lengi frá því City er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni og auðvitað komið áfram í Meistaradeildinni sjálfri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×