Innlent

Þrjú þúsund krónur myndu skila yfir fimm milljörðum

Óli Kristján Ármansson skrifar
Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor
Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor Mynd/Aðsend

Leggja ætti komugjald á alla sem koma til landsins, ferðamenn jafnt sem landsmenn. Þetta segir Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor í grein í nýjasta hefti efnahagsritsins Vísbendingar.
„Á árinu 2015 komu alls 1.262 þúsund erlendir ferðamenn til landsins og 450 þúsund Íslendingar sneru aftur úr ferðalögum erlendis. Ef lagt væri á 3.000 króna komugjald þá myndu tekjur árið 2015 hafa numið rúmum fimm milljörðum króna,“ bendir hann á í greininni. Tekjurnar segir hann að mætti nota til að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar.
Gylfi tengir umræðuna um ferðaþjónustuna því að hér hafi menn oft grætt á kostnað almenningseigna.

„Það er umhugsunarvert að bankahagkerfinu sem hrundi hafi ekki verið búin stofnanaleg umgjörð sem kom í veg fyrir þau lögbrot og glannaskap sem síðan hafa komið í ljós. Það er einnig merkilegt að þrátt fyrir vaxandi mikilvægi ferðaþjónustu, sem nú er orðin stærsta útflutningsgreinin, skuli ekki hafa verið veitt meira fjármagni í uppbyggingu innviða og öryggismál tengd þessari grein.“

Verði ekkert að gert segir Gylfi ljóst að of margir ferðamenn muni leika innviði landsins og náttúru grátt, fjöldi slysa og dauðsfalla verði og ferðaþjónusta muni ekki dafna þegar til lengri tíma sé litið. Líkt og komið hafi í ljós með bankakerfið forðum fari ekki alltaf saman hagsmunir þjóðar og einkafyrirtækja.

„Þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu neita að leggja á komugjald þá þarf engu að síður að setja lög um slíkt. Og ef ferðamönnum fækkar fyrir vikið, þá er það ekki alslæmt.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira