Innlent

Þokast hjá BHM og hjúkrunarfræðingum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Lokasprettur kjaraviðræðna og deilna síðasta árs stendur enn. Myndin er frá mótmælastöðu í aðgerðum BHM og hjúkrunarfræðinga á Austurvelli í fyrrasumar, þegar viðræður stóðu við ríkið, en félögin eiga enn ósamið við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Lokasprettur kjaraviðræðna og deilna síðasta árs stendur enn. Myndin er frá mótmælastöðu í aðgerðum BHM og hjúkrunarfræðinga á Austurvelli í fyrrasumar, þegar viðræður stóðu við ríkið, en félögin eiga enn ósamið við Samband íslenskra sveitarfélaga. vísir/Stefán

Samninganefndir Bandalags háskólamanna (BHM) og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa fundað stíft síðan fyrir síðustu helgi, að því er Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir. Enn er haldið í vonina um að saman náist í viðræðunum.

Bandalag Háskólamanna, BHM, Héraðsdómur Reykjavíkur, kjaradeila, Páll Halldórsson, verkfallslög, Þórunn Sveinbjarnardóttir

„Það er verið að vinna úr tilboði sveitarfélaganna og skiptast á upplýsingum,“ segir Þórunn og bætir við að þau hjá BHM séu „hæfilega bjartsýn“ á framhaldið. „Við viljum auðvitað fara að sjá fyrir endann á þessu og vonandi verður það á næstu dögum, en það er með þetta eins og áður í samningaviðræðum, að þetta er ekki búið fyrr en það er búið.“

Um leið áréttar Þórunn að viðræðurnar hafi engu að síður þokast áfram frá því í lok síðustu viku. „Við vonum að það beri einhvern árangur í þessari viku.“

Náist ekki saman á næstu dögum segir Þórunn ýmislegt hafa verið íhugað hjá samtökunum varðandi næstu skref. „En það hafa engar ákvarðanir verið teknar og við einbeitum okkur að því núna, samninganefndir þessara BHM-félaga sem eftir eru, að vinna með tilboð sveitarfélaganna og sjá hvort það sé grundvöllur samnings. Það tekur tíma, þetta er mikil útfærsla og nákvæmnisvinna.“

Þórunn segir verkefnið nokkuð flókið vegna þess að í sumum tilvikum hafi þurft að gera grund­vallar­breytingar á launakerfinu. „Og þá er betra að vanda sig bara.“

Ólafur G. Skúlason formaður Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, tekur í svipaðan streng. Enn hafi ekki komið til umræðu í röðum hjúkrunarfræðinga að boða til aðgerða til að þrýsta á um gerð kjarasamnings. „Við erum bara í viðræðum enn þá. Það gengur hægt, en það gengur samt,“ segir hann.

Enn sem komið er hafa því sjúkraliðar einir boðað til verkfallsaðgerða til að knýja á um samninga við sveitarfélögin. Félagið samþykkti í byrjun vikunnar boðun verkfalls frá og með mánudeginum 4. apríl næstkomandi hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.

Boðað verkfall sjúkraliða nær til öldrunar- og heilbrigðis- og félagsþjónustu sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.