Innlent

Súðavíkurhlíðin sé í reynd rússnesk rúlletta

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Súðavíkurhlíðin er í reynd rússnesk rúlletta með tilliti til öryggis vegfarenda, sem er óásættanlegt," segir í þingsályktunartillögunni.
"Súðavíkurhlíðin er í reynd rússnesk rúlletta með tilliti til öryggis vegfarenda, sem er óásættanlegt," segir í þingsályktunartillögunni. vísir/pétur markan
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að Álftafjarðargöng verði tekin inn í næstu samgönguáætlun og hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis. Vegurinn um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og Súðavíkurhlíð í Álftafirði sé stórhættulegur vegfarendum vegna tíðar ofanflóða, einkum snjóflóða.

Farið er fram á að innanríkisráðherra verði falið að gera nauðsynlegar breytingar á samgönguáætluninni þannig að jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi verði næsta jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum á eftir Dýrafjarðargöngum. Ráðherra hefji þegar undirbúning vegna jarðgangnagerðarinnar og tryggi jafnframt nægilegar fjárveitingar til fyrirhugaðra snjóflóðavarna.

Sjá einnig:Sex krapaflóð féllu á veginn um Súðavíkurhlíð á mánudag

Óásættanlegt ástand

Í greinargerð með tillögunni segir að árum saman hafi sú vitneskja legið fyrir að vegurinn um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og Súðavíkurhlíð í Álftafirði sé stórhættulegur vegfarendum vegna tíðra ofanflóða, einkum snjóflóða. Það hafi komið átakanlega glöggt í ljós í ofviðri sem gekk yfir Vestfirði áramótin 2012 þegar fjölmörg snjóflóð féllu á þessari leið á fáeinum dögum.

„Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, höfuðstað Vestfjarða. Þær aðstæður sem þar með mynduðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum sem sækja heilbrigðisþjónustu og aðra grunnþjónustu til Ísafjarðar,“ segir í ályktuninni.

Þá segir jafnframt að Súðavíkurhlíðin sé í reynd rússnesk rúlletta með tilliti til öryggis vegfarenda, sem sé óásættanlegt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×