Fótbolti

Sandra um kaupverðið: Ég pæli ekkert í því

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur leik á Algarve-mótinu á morgun þegar liðið mætir Belgíu í fyrsta leik A-riðils.

Stelpurnar okkar eru einnig í riðli með Danmörku og Kanada, en nokkrar af bestu þjóðum heims vantar á mótið í ár þar sem þær eru uppteknar í forkeppni Ólympíuleikana.

Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals, er í íslenska hópnum að vanda, en Sandra yfirgaf Stjörnuna og gekk í raðir Hlíðarendafélagsins í byrjun síðasta mánaðar.

Sandra, sem hóf sinn feril með liði Þór/KA/KS, gekk í raðir Stjörnunar 2005 og hefur undanfarinn áratug verið einn albesti markvörður Pepsi-deildar kvenna.

Samkvæmt frétt Fótbolti.net kostaði hún Valsmenn tvær milljónir króna, en fáheyrt er að leikmaður sem keyptur fyrir slíka upphæð í kvennaboltanum.

„Ég er mjög sátt við að hafa tekið þessa ákvörðun og að þetta hafi gengið í gegn,“ segir Sandra um vistaskiptin í viðtali við SportTV á Portúgal, en hvað hefur hún að segja um kaupverðið?

„Ég pæli ekkert í því. Ég hugsaði bara um að þetta myndi leysast og ég gæti farið að spila fótbolta aftur. Eftir að ég tek ákvörðun um að vilja fara kemur þetta upp og mér leist vel á það.“

Sandra fagnar því eðlilega að vera með stelpunum á Algarve en þar getur liðið æft og spilað við bestu aðstæður.

„Það er gulrót á veturnar að koma hingað og mótið hjálpar rosalega mikið andlega og líkamlega. Hér fáum við að vera á grasi við topp aðstæður. Það er gott að rífa sig frá slorinu heima,“ segir Sandra Sigurðardóttir.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira