Enski boltinn

Leicester tapaði stigum á heimavelli í kvöld | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Leicester fagna.
Leikmenn Leicester fagna. Vísir/Getty

Topplið Leicester City tapaði tveimur stigum á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við West Bromwich Albion.

Leicester-liðið gæti því misst toppsætið til Tottenham á morgun takist leikmönnum Tottenham að vinna West Ham á útivelli.

Bæði liðin komust yfir í fyrri hálfleiknum en á endanum var það aukaspyrnumark Craig Gardner sem tryggði West Brom stig.

Leicester-liðið sótti mikið í lokin en náði ekki að skora sigurmark eins og liðið hefur gert svo oft í undanförnum leikjum sínum. Liðið fékk fjölda færa til að skora fleiri mörk og átti meðal annars tvo skalla í slá í leiknum.

Andy King kom inn fyrir hinn meidda N'Golo Kanté hjá Leicester og það er óhætt að segja að King hafi látið til sín taka í fyrri hálfleiknum með því að skora og leggja upp mark í leiknum.

West Bromwich liðið byrjaði þó betur og José Salomón Rondón kom liðinu í 1-0 eftir ellefu mínútna leik.

Leikmenn Leicester létu þessa slæmu byrjun ekki slá sig útaf laginu og Jamie Vardy var nálægt því að jafna metin þegar hann skallaði í slána á 27. mínútu.

Danny Drinkwater skoraði hinsvegar jöfnunarmarkið fjórum mínútum síðar en hafði heppnina með sér því langskot hans fór af varnarmanni WBA. Andy King átti sendinguna á hann.

Andy King skoraði síðan sjálfur í uppbótartíma fyrri hálfleiksins eftir að hafa fengið frábæra hælspyrnu frá Riyad Mahrez. Það var ellefta markið sem Riyad Mahrez leggur upp í deildinni.

WBA byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri eða með því að skora. Craig Gardner jafnaði metin á 50. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu.

Leicester-liðið var nálægt því að skora sigurmarkið í lokin en hafði ekki heppnina með sér fyrir framan markið.

Þrjú mörk í fyrri hálfleik í leik WBA og Leicester Craig Gardner jafnar með skoti beint úr aukaspyrnu

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira