Enski boltinn

Leicester tapaði stigum á heimavelli í kvöld | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Leicester fagna.
Leikmenn Leicester fagna. Vísir/Getty
Topplið Leicester City tapaði tveimur stigum á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við West Bromwich Albion.

Leicester-liðið gæti því misst toppsætið til Tottenham á morgun takist leikmönnum Tottenham að vinna West Ham á útivelli.

Bæði liðin komust yfir í fyrri hálfleiknum en á endanum var það aukaspyrnumark Craig Gardner sem tryggði West Brom stig.

Leicester-liðið sótti mikið í lokin en náði ekki að skora sigurmark eins og liðið hefur gert svo oft í undanförnum leikjum sínum. Liðið fékk fjölda færa til að skora fleiri mörk og átti meðal annars tvo skalla í slá í leiknum.

Andy King kom inn fyrir hinn meidda N'Golo Kanté hjá Leicester og það er óhætt að segja að King hafi látið til sín taka í fyrri hálfleiknum með því að skora og leggja upp mark í leiknum.

West Bromwich liðið byrjaði þó betur og José Salomón Rondón kom liðinu í 1-0 eftir ellefu mínútna leik.

Leikmenn Leicester létu þessa slæmu byrjun ekki slá sig útaf laginu og Jamie Vardy var nálægt því að jafna metin þegar hann skallaði í slána á 27. mínútu.

Danny Drinkwater skoraði hinsvegar jöfnunarmarkið fjórum mínútum síðar en hafði heppnina með sér því langskot hans fór af varnarmanni WBA. Andy King átti sendinguna á hann.

Andy King skoraði síðan sjálfur í uppbótartíma fyrri hálfleiksins eftir að hafa fengið frábæra hælspyrnu frá Riyad Mahrez. Það var ellefta markið sem Riyad Mahrez leggur upp í deildinni.

WBA byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri eða með því að skora. Craig Gardner jafnaði metin á 50. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu.

Leicester-liðið var nálægt því að skora sigurmarkið í lokin en hafði ekki heppnina með sér fyrir framan markið.

Þrjú mörk í fyrri hálfleik í leik WBA og Leicester Craig Gardner jafnar með skoti beint úr aukaspyrnu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×