Enski boltinn

Rangstöðumark Diego Costa réði úrslitum á Carrow Road | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa fagnar marki með Kenedy
Diego Costa fagnar marki með Kenedy vísir/getty

Chelsea er komið upp í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 útisigur á Norwich City í kvöld.

Chelsea komst upp fyrir Stoke og Liverpool með þessum sigri og hefur enn ekki tapað deildarleik undir stjórn Guus Hiddink.

Markið sem skildi á milli liðanna átti þó aldrei að standa því Diego Costa var rangstæður þegar hann kom Cheslea í 2-0 í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.

Diego Costa hefur raðað inn mörkum síðan að Guus Hiddink tók við Chelsea-liðinu af Jose Mourinho.

Norwich átti fína spretti í seinni hálfleiknum og fékk tækifæri til að jafna metin.

Chelsea fékk draumabyrjun á leiknum þegar Kenedy kom liðinu í 1-0 eftir aðeins 39 sekúndur en hann skoraði þá með hnitmiðuðu langskoti eftir undirbúning Eden Hazard.

Þetta var fyrsta mark Kenedy í ensku úrvalsdeildinni og jafnframt fljótasta markið í ensku úrvalsdeildinni til þessa á tímabilinu.

Það var nánast heill hálfleikur á milli marka Chelsea í fyrri hálfleiknum því Diego Costa kom liðinu í 2-0 í uppbótartíma hálfleiksins.

Diego Costa hafði reyndar heppnina með sér því það fór framhjá aðstoðardómara leiksins að Diego Costa var rangstæður þegar hann fékk boltann.

Diego Costa lét það þó ekki trufla sig og afgreiddi boltann laglega í markið og skoraði sitt tíunda mark í síðustu fjórtán leikjum.

Nathan Redmond minnkaði muninn í 2-1 á 68. mínútu og leikmenn Norwich reyndu að ná jöfnunarmarki í lokin án árangurs.

Kenedy kemur Chelsea í 1-0 Diego Costa kemur Chelsea í 2-0 Nathan Redmond minnkar muninn fyrir Norwich


Fleiri fréttir

Sjá meira