Körfubolti

Draymond Green bað liðsfélagana afsökunar á blótsyrðaflauminum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Draymond Green.
Draymond Green. Vísir/Getty

Draymond Green hefur verið kallaður andlegur leiðtogi Golden State Warriors liðsins, núverandi NBA-meistara og liðsins sem er með bestan árangur í NBA-deildinni í dag.

Ástríða og atorka Draymond Green inn á vellinum gerir hann að afar mikilvægum leikmanni fyrir liðið en á laugardaginn gekk hann of langt í stórleiknum á móti Oklahoma City Thunder.

Golden State Warriors liðið var ellefu stigum undir í hálfleik og Draymond Green gersamlega missti sig inn í klefa. Blótsyrðaflaumur hans fór ekki framhjá neinum sem voru í návígi við búningsklefann og sjónvarpsmaður ABC talaði um það að hafa aldrei heyrt slíkt áður.

Hvort sem að ræða Draymond Green var ósmekkleg eða undir beltisstað þá virtist hún bera árangur því Golden State Warriors vann sig inn í leikinn og vann á endanum 121-118 sigur í framlengingu.

Liðsfélagar Draymond Green vildu ekki gera of mikið úr atvikinu í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn en leikmaðurinn sjálfur  taldi ástæðu til þess að biðja alla afsökunar á hegðun sinni.

„Ég viðurkenni þegar ég geri mistök. Ég gerði mistök. Ég hef beðið liðsfélaga mína og þjálfara afsökunar. Þetta var ekki rétta leiðin. Sem leiðtogi liðsins þá get ég ekki leyft mér að hafa mér svona. Þetta mun ekki gerast aftur. Ég lét tilfinningarnar bera mig ofurliði," sagði Draymond Green.

Draymond Green skoraði bara 2 stig á 44 mínútum í leiknum og klikkaði á öllum átta skotum sínum utan af velli en hann var líka með 14 fráköst, 14 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 4 varin skot.

Golden State Warriors vann þarna sinn 53. leik á tímabilinu en liðið hefur aðeins tapað fimm leikjum og nálgast óðfluga NBA-met Chicago Bulls frá 1995-96.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira