Innlent

Tekist á um mansalstillögu í borgarstjórn

Jakob Bjarnar skrifar
Hildur telur tillöguna snúast um fátt annað en það að meirihlutinn vilji auglýsa fegurri ásýnd.
Hildur telur tillöguna snúast um fátt annað en það að meirihlutinn vilji auglýsa fegurri ásýnd.

Nú fyrir stundu var lögð fram tillaga í Borgarstjórn Reykjavíkur um samtal borgarinnar við ríki vegna mansals. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gefa lítið fyrir þessa tillögu, telja hana aðallega setta fram til að auglýsa sig fyrir að standa fyrir eitthvað sem allir eru sammála um. Að mansal sé vont.

Sjálfstæðismenn settu fram breytingartillögu. Var verulegur hiti í ráðhúsinu þegar málið var rætt og tókust einkum á þær Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir Sjálfstæðisflokki og Sóley Tómasdóttir Vinstri grænum og S. Björn Blöndal Bjartri framtíð. Þá taldi Sigurður Björn Blöndal Bjartri framtíð breytingartillöguna snúast um stafsetningu, og þótti sú athugsemd lýsa talsverðum hroka Sigurðar og meirihlutans, í hópi minnihlutans í borginni. Áslaug sagði tillöguna þunna og grunna.

Mikilvægt að vinna gegn mansali
Tillagan er svohljóðandi:

„Borgarstjórn samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að hefja samtal við innanríkisráðuneytið um aðgerðir til að sporna gegn mansali og tryggja fórnarlömbum líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð við hæfi.“

Í greinargerð sem fylgir segir að mansal sé „einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum og fyrirfinnst hér á Íslandi sem annars staðar. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög byggi upp öflugar forvarnir og tryggi skjól og tryggi eins góða vernd og þjónustu fyrir fórnarlömb og hægt er. Aðgerðaáætlun ríkisins um mansal leggur meðal annars áherslu á að auka forvarnir meðal almennings og fagaðila. Á vettvangi ofbeldisvarnarnefndar hefur komið fram að þróa þurfi þjónustu við fórnarlömb mansals með hagsmuni þeirra og öryggi í huga. Samstarf og samtal er fyrsta skrefið í þeim efnum og brýnt að borgarstjórn standi saman í þeirri vinnu sem framundan er.“

Borgin ætti að líta sér nær
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu hins vegar fram eftirfarandi breytingartillögu:

„Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins Borgarstjórn samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að móta tillögur um aðgerðir til að sporna gegn mansali og tryggja fórnarlömbum líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð við hæfi. Ofbeldisvarnarnefnd hafi samráð eftir þörfum, s.s. við hlutaðeigandi ráðuneyti. Tillögum verði skilað til borgarráðs eins fljótt og auðið er.“

Vísir spurði Hildi hvers vegna Sjálfstæðismenn vildu leggja fram breytingartillöguna?

„Því fyrri tillaga meirihlutans var efnislega ófullnægjandi og sagði lítið annað en að borgarfulltrúar vilji eiga óskilgreint samtal við ríkið um aðgerðir. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er innanríkisráðuneytið þegar vel á veg með sína aðgerðaráætlun gegn mansali og margt þar vel unnið. Því er nærtækara að borgin líti sér nær og hafi skilgreindari markmið borgarinnar megin sem verði þá unnið almennilega af borginni ef vilji er til þess í staðinn fyrir að keyra í gegn ófullkomnar tillögur sem gera lítið annað en að vera með fallega ásýnd.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira