Innlent

Erlendur ríkisborgari í einangrun grunaður um aðild að ráni og frelsissviptingu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 4. mars næstkomandi samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Maðurinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 4. mars næstkomandi samkvæmt dómi Hæstaréttar. Vísir/GVA

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að maður sem grunaður er um aðild að ráni og frelsissviptingu í heimahúsi þann 16. febrúar síðastliðinn sæti gæsluvarðhaldi, og einangrun á meðan á því stendur, til 4. mars næstkomandi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Maðurinn er erlendur ríkisborgari og ekki með nein tengsl við Ísland að því er virðist.

Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að lögreglan rannsaki nú meint rán og frelsissviptingu á heimili konu sem lýsti því vð skýrslutöku hvernig sex menn hafi ruðst inn til hennar og haldið henni nauðugri þar í sex klukkustundir. Hafi mennirnir bundið hana niður og beitt hana ofbeldi, meðal annars notað rafbyssu á hana og tekið hana kyrkingartaki svo hún leið út af í tvígang. Þegar mennirnir hafi farið hafi þeir haft með sér skartgripi og peninga í hennar eigu.

Eftir árásina hafi síðan maðurinn sem nú situr í haldi ítrekað hringt í konuna og hótað henni lífláti. Málið er talið tengjast því að konan hafi átt að geyma fíkniefni sem maðurinn smyglaði hingað til lands á síðasta ári en lögregla lagði síðar hald á efnin á heimili konunnar. Maðurinn á að hafa hótað konunni lífláti ef hún myndi ekki greiða honum 5 milljónir króna vegna fíkniefnanna.

Maðurinn er grunaður um aðild að brotum sem geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins sé hvergi nærri lokið en enginn hafi verið handtekinn vegna þess og því afar brýnt að mati lögreglu að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi og einangrun þannig að hann hafi ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, til dæmis með því að koma munum undan og/eða hafa áhrif á aðra samseka.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira