Körfubolti

Gunnar: Bonneau búinn að vera ótrúlega duglegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau.
Stefan Bonneau. Vísir/Ernir
Gunnar Örlygsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, ætlar ekki aðeins að fylgjast vel með þegar Stefan Bonneau spilar sinn fyrsta leik með Njarðvík eftir hásinarslit því formaðurinn ætlar að spila sjálfur með Bonneau í kvöld.

B-lið Njarðvíkur spilar á móti Íþróttafélagi Breiðholts klukkan 20.30 í 2. deildinni í kvöld en leikurinn fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Bæði Stefan Bonneau og Gunnar verða í búning.

„Ef að það finnst búningur á mig þá verð ég með," sagði Gunnar Örlygssson í léttum tón í samtali við Vísi í kvöld.

„Þetta er bara til gamans gert. Hann er bara að fara inná í nokkrar mínútur og í 2. deildini. Það er ekki hægt að líkja þessu við alvöruna," sagði Gunnar.

„Við settum þetta inn á síðuna okkar fyrir klukkutíma síðan og það eru búnar að loga allar línur síðan. Okkur finnst það mjög fyndið og gaman bara. Hann er það skemmtilegur leikmaður og það kemur því ekki á óvart að það veki athygli að hann sé að vakna til lífsins," sagði Gunnar.

„Hann er búinn að vera alveg ótrúlega duglegur að æfa í þessu veikindaferli. Hann er byrjaður að taka alvöru spretti og núna má hann fyrsta fara í smá kontakt. Eftir 15. mars þá má hann samkvæmt læknisráði fara í alvöru kontakt," segir Gunnar og Stefan Bonneau mun því ekki spila næstu deildarleiki Njarðvíkur þrátt fyrir endurkomuna í kvöld.

„Þetta er að koma hjá honum og hann er orðinn svolítið óþolinmóður. Við erum að horfa á hann eftir miðjan mars. Eins og staðan er núna þá er hann ekki að fara breyta liðsmyndinni mikið fyrst eftir að hann kemur inn," segir Gunnar og útskýrir frekar.

"Hann spilar kannski einhverjar mínútur í leik en það er þjálfaranna að ákveða það. Hann lofar góðu og það er okkar metnaður að halda honum hjá okkur fyrir næsta tímabili," segir Gunnar en hvernig lítur þetta út?

„Hann er farinn að hlaupa línuhlaupin þannig að hann er á pari við fremstu menn. Hann er kominn þangað og körfuboltafólk veit alveg hvað ég er að tala um þegar ég segi það. Hann er kominn í þessa spretti en hann er náttúrulega í engri leikæfingu," sagði Gunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×