Enski boltinn

Skorar Rashford 1.000. úrvalsdeildarmarkið á Old Trafford?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marcus Rashford skoraði tvö mörk í fyrsta leiknum í ensku úrvalsdeildinni og það á Old Trafford.
Marcus Rashford skoraði tvö mörk í fyrsta leiknum í ensku úrvalsdeildinni og það á Old Trafford. vísir/getty
Manchester United er á barmi þess að skora 1.000 mörk á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni og getur náð þeim áfanga í kvöld þegar liðið tekur á móti nýliðum Watford klukkan 20.00. Þetta kemur fram á vef Sky Sports.

United-liðið skoraði þrjú mörk á móti Arsenal í fræknum heimasigri á sunnudaginn var þar sem hinn 18 ára gamli Marcus Rashford stimplaði sig inn með látum og skoraði tvö mörk.

Sjá einnig:Verður Rashford eins og Nistelrooy eða Macheda?

Manchester United er búið að skora 998 mörk á Old Trafford og getur náð 1.000 mörkum á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Skori Marcus Rashford t.a.m. þriðju tvennuna í röð verður það táningurinn sem skráir nafn sitt í sögubækurnar.

United bjóst kannski við að ná þessum áfanga fyrr á leiktíðinni, en liðinu hefur ekki gengið vel fyrir framan markið það sem af er. Það hefur aðeins skorað 18 mörk í þrettán heimaleikjum sem er fáheyrt á Old Trafford. Þá hefur United mistekist að skora í fimm heimaleikjum á þessari leiktíð.

Liðið er aðeins búið að skora 1,38 mörk á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, en í heildina er United að skora 1,33 mörk í leik. Meðal markaskor Manchester United í sögu ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford er 1,98 mark í leik.

Sjá einnig:Hver er þessi Rashford? | Sjáðu öll mörkin

Wayne Rooney er sá sem hefur skorað flest mörk fyrir Manchester United á Old Trafford eða 99 stykki í 181 leik. Hann er langt á undan næsta manni, Paul Scholes, sem skoraði 59 mörk á Old Trafford á glæstum ferli sínum.

Arsenal er næst á eftir Manchester United í mörkum skoruðum á heimavelli, en 911 mörk þess skiptast á milli Highbury og Emirates-vallarins. Chelsea hefur skorað þriðju flest mörkin á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni eða 893 mörk.

Fimm leikir eru á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í kvöld, þar á meðal viðureignir Manchester United og Watford, Swansea og Arsenal, og Liverpool og Manchester City.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×