Fótbolti

Elín Metta æfði með landsliðinu á 21 árs afmælisdaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta hefja leik á Algarve-mótinu klukkan 15.00 í dag þegar þær mæta Belgíu. Liðið mætti til Algarve á mánudaginn en í hópnum er markadrottningin unga Elín Metta Jensen. Þessi tvítugi framherji sem á að baki 60 mörk í 87 deildar- og bikarleikjum með Val, átti afmæli í gær.

„Þetta er 21 árs afmæli sem er stærra í Bandaríkjunum en á Íslandi. Þetta þykir mjög merkilegt hjá vinum mínum þar úti,“ segir Elín Metta í viðtali við SportTV, en áfengisaldurinn er 21 ár í Bandaríkjunum.

Elín Metta ákvað að fara í háskóla í Bandaríkjunum eftir síðasta tímabil og samdi við meistara Florida State, sama lið og Dagný Brynjarsdóttir spilaði með. Elín nýtur lífsins vestanhafs.

„Mér finnst ég vera búin að læra helling og fá nýja sýn á fótboltann. Þegar maður skiptir um umhverfi sér maður nýja hluti sem maður var kannski ekki búinn að pæla í áður,“ segir Elín Metta. „Ég er mjög þakklát fyrir það. Ég er að spila með rosalega góðum leikmönnum og svo er ég mjög ánægð með þjálfarann.“

Algarve-mótið er liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir seinni hluta undankeppni EM 2017, en að komast á stórmót er stóri draumurinn hjá Elínu.

„Það er fullt af góðum leikmönnum sem eru að koma inn þannig það verður spennandi að sjá hvernig liðið þróast á næstu árum. Það eru smá kynslóðarskipti í landsliðinu,“ segir hún. „Það væri algjör draumur að komast á stórmót og eitthvað sem maður stefnir á sem fótboltakona,“ segir Elín Metta Jensen.


Tengdar fréttir

Vilja að ég fljúgi beint frá Portúgal en ég fæ að fara heim

Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður kvennalandsliðsins í fótbolta, vill að stelpurnar okkar byggi ofan á góða spilamennsku liðsins og vinni helst Algarve-mótið sem hefst í dag. Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik mótsins. Dagný rétt fær að koma heim og pakka í tösku eftir mótið áður en nýtt ævintýri hefst í Portland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×