Enski boltinn

Johnson sekur um kynferðisbrot gegn barni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Johnson kemur til réttarins í dag.
Adam Johnson kemur til réttarins í dag. Vísir/Getty
Adam Johnson, fyrrum leikmaður Sunderland, hefur verið sakfelldur í einum ákærulið um kynferðsbrot gegn fimmtán ára ólögráða stúlku. Dómurinn var kveðinn upp nú síðdegis.

Ákæran sem hann var sakfelldur snýst um kynferðislega snertingu en hann var sýknaður af ákæru um annars konar kynferðislega hegðun.

Johnson hafði áður játað sök í tveimur ákæruliðum. Annars vegar að vingast við stúlku í þeim tilgangi að eiga í kynferðislegu sambandi við hana og hins vegar að hafa kysst hana.

Refsing Johnson hefur ekki verið ákveðin enn en dómarinn í málinu, Jonathan Rose, varaði Johnson við því að hann gæti átt von á allt að fimm ára fangelsisdómi.

Hinn 28 ára Johnson sýndi engin svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp.

Johnson hitti stúlkuna, sem var þá fimmtán ára, þann 30. janúar 2015. Hann áritaði tvær knattspyrnutreyjur fyrir hana og játaði að hafa kysst hana. Hann fullyrti að samskipti þeirra hefðu ekki náð út fyrir það.

Stúlkan bar hins vegar vitni um að hann hefði sett hönd sína í nærbuxur hennar og að hann hefði fengið munnmök frá henni. Hann var sakfelldur í fyrra atriðinu en sýknaður í því síðara.

Johnson var áður á mála hjá Sunderland en var rekinn frá félaginu þegar hann játaði sök fyrir dómara.


Tengdar fréttir

Sunderland rekur Johnson

Enska úrvalsdeildarfélagið Sunderland hefur rekið Adam Johnson en hann hefur játað á sig kynferðisbrot gegn barni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×