Enski boltinn

Gylfi fékk átta fyrir innkomuna í Lundúnum: „Svo rosalega mikilvægur þessu liði“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, byrjaði óvænt á varamannabekk Swansea þegar liðið heimsótti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Gylfi var settur inn á í byrjun seinni hálfleiks þegar staðan var 1-1 og lagði upp sigurmarkið með frábærri aukaspyrnu sem fyrirliðinn Ashley Williams stýrði í netið.

Sigurinn var gríðarlega þýðingarmikill fyrir Swansea sem er nú sex stigum frá fallsvæðinu með 30 stig eftir 28 umferðir.

Fyrir innkomu sína og frammistöðu í leiknum fær Gylfi Þór átta í einkunn á vef Wales Online, en það er næst hæsta einkunn sem er gefin fyrir leikinn í gær. Fyrirliðinn og markaskorarinn Ashley Williams fær hæstu einkunn eða níu.

„Ró hans og gæði höfðu mikil áhrif á leikinn,“ segir í umsögn vefsins um Gylfa Þór. „Aukaspyrna hans sem tryggði liðinu sigurinn var ómótstæðileg, alvöru gæði sem verðskulduðu þrjú stig. Hann er svo rosalega mikilvægur þessu liði.“

Þetta er annað markið sem Gylfi Þór leggur upp í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Hann er búinn að skora önnur sjö, þar af fimm á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×