Innlent

Óttast að kattafló sé að breiðast út

Ef dýrin klóra sér, sleikja eða bíta í húðina meira en venjulega er rétt að skoða feldinn vel. nordicphotos/gettyimages
Ef dýrin klóra sér, sleikja eða bíta í húðina meira en venjulega er rétt að skoða feldinn vel. nordicphotos/gettyimages

Heilbrigðismál Kattafló hefur greinst á fleiri köttum á höfuðborgarsvæðinu og hætt við að flóin sé útbreiddari en talið hefur verið. Matvælastofnun telur þó mögulegt að uppræta flóna en til þess þarf samstillt átak hunda- og kattaeigenda. Sérstaka smitgát skal viðhafa á dýrasýningum. Fyrst varð vart við þessa óværu í febrúar þegar greindist kattafló á ketti í Garðabæ en þessi tegund flóa hefur örsjaldan fundist hér á landi. Nú er um að ræða kött af heimili í miðborg Reykjavíkur, sem fer út að vild og telur Matvælastofnun að hugsanlega sé kattaflóin orðin útbreidd meðal katta, og ef til vill hunda. Til að kanna útbreiðsluna hefur Matvælastofnun nú beint þeim tilmælum til dýralækna að þeir taki sýni af öllum köttum og hundum á tímabilinu frá 14.–28. mars, sem komið er með til þeirra og eru með einkenni í húð. Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum mun taka við sýnunum og kanna hvort í þeim leynast kattaflær. Kattaflóin getur valdið bæði dýrum og mönnum miklum óþægindum og jafnvel veikindum. Hún getur jafnframt borið með sér sýkla sem ekki hafa greinst í dýrum hér á landi, og geta valdið veikindum í köttum og jafnframt borist í fólk. Það er því mikils um vert að koma í veg fyrir að hún nái fótfestu hér á landi, er mat Matvælastofnunar. Kattafló hefur aðeins greinst í stökum tilfellum hér á landi, m.a. á hundum á árunum 1980 og 1984 og á innfluttum dýrum í einangrun árið 2012 og árið 2013. Í öllum tilvikum náðist að uppræta flóna. – shá
Fleiri fréttir

Sjá meira