Innlent

Hnakkrífast vegna búvörusamninganna

Birgir Olgeirsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra láta sér nægja að "hrauna“ í allar áttir í umræðum um búvörusamninga.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra láta sér nægja að "hrauna“ í allar áttir í umræðum um búvörusamninga. Vísir

Forsætisráðherra og forseti Alþýðusambands Íslands hafa deilt hart á hvor annan vegna búvörusamninganna í dag.

Fyrr í dag skoraði miðstjórn ASÍ á Alþingi að hafna búvörusamningum og sagði þessa samninga fela í sér óbreytt ástand næstu tíu árin og muni ekki bæta hag neytenda. Gagnrýndi miðstjórnin harðlega skort á samráði við undirbúning búvörusamninganna og hafi það meðal annars birst í því að nefnd sem átti að vinna að stefnumótun í mjólkurframleiðslu var lögð niður og aldrei kölluð saman eftir að skýrsla um stöðu og horfur í mjólkurframleiðslu kom út.

Búvörusamningar gerðir „bak við luktar dyr“
„Síðan þá hefur Alþýðusambandið enga aðkomu haft að undirbúningi búvörusamninga en það verður að teljast stórundarlegt, í ljósu gríðarlegra hagsmuna launafólks og neytenda, að búvörusamningar séu gerðir bak við luktar dyr,“ segir í ályktun miðstjórnarinnar.

Þar kemur einnig fram að það hafi lengi verið skoðun ASÍ að þörf sé á auknum innflutningi landbúnaðarvara og þar af leiðandi aukinni erlendri samkeppni til að veita aðhald á markaði með íslenskar landbúnaðarvörur, markaði sem einkennist af fákeppni og einokun.

Sigmundur Davíð málið ekki snúast um að verja bændur heldur samvinnu ólíkra stétta. vísir/vilhelm

Segir forseta ASÍ skammast yfir því að fá ekki að skipta sér af
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ritaði svar á vef sinn þar sem hann sagði Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, skammast yfir því að hafa ekki fengið að skipta sér nógu mikið af samningum við bændum.

„Á þá formaður Bændasamtakanna að troða sér að samningaborðinu hjá öðrum stéttarfélögum og mæla fyrir um hversu mikið megi greiða hinum og þessum stéttum og með hvaða hætti?  Ætti formaður Bændasamtakanna að bölsótast yfir því að það sé ómögulegt að menn séu bundnir af þessum íslensku kjarasamningum þegar erlent vinnuafl sé til í að vinna sömu vinnu á lægra verði,“ spurði Sigmundur.

Snýst ekki um að verja bændur heldur samvinnu ólíkra stétta
Hann spurði jafnframt Gylfa hver kjör þeirra eru sem starfa við framleiðsluna sem hann vill að fái betri tækifræi til að keppa við framleiðslu þeirra sem starfa í greininni á Íslandi?

„Telur hann að þeir sem starfa þar á lægstu töxtum búi við betri, jafngóðar eða verri aðstæður og kjör en fólk sem við myndum á Íslandi kalla fórnarlömb mansals? Það væri auðvitað hægt að ná sama markmiði með því að hafa bara nokkur risabú á Íslandi með vinnuafli sem fengi greitt samkvæmt kjarasamningum í Bangladesh,“ skrifaði Sigmundur og sagði þetta málið ekki snúast um að verja bændur heldur samvinnu ólíkra stétta.

„Hann um það en þjóðin verðskuldar annað,“ segir Gylfi Arnbjörnsson um forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

„Hvar endar það ef við sættum okkur við að vegið sé að einni stétt í einu til að bæta kjör hinna? Reyndar er það ekki einu sinni svo að það að hætta stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu bæti kjör annarra hópa. Á endanum myndi það þýða aukið gjaldeyristap og hærri álagningu á hinum innfluttu matvælum eins og menn hafa kynnst í löndum sem gert hafa tilraunir í þessa veru.“

Skrýtin útgáfa af samvinnu
Gylfi Arnbjörnsson svaraði Sigmundi á Facebook-síðu sinni í kvöld þar sem hann sagði það vera skrýtna útgáfu af þeirri sem samvinnu sem forsætisráðherrann lýsir þegar þeir sem mesta hagsmuni hafa af málinu fá hvorki að lýsa áhyggjum sínum né leggja til aðrar leiðir.

„En bara svo forsætisráðherra viti það, og vegna þess að okkur hefur ekki verið gefið neitt tækifæri á því að leggja okkar tillögur fram, þá hefur ASÍ í meira en tvo áratugi lagt til að auka verulega beinan stuðning við bændur en draga á móti úr innflutningsverndinni (ofurtollunum),“ skrifar Gylfi.

Hann segir að við það myndu erlendir markaðir opnast og bændur og afurðarstöðvar þeirra sótt fram fremur en að pakka í vörn.

„Sem er ekkert annað en bitur fátækt og eymd! En þetta hefur þessi ágæti forsætisráðherra okkar ekki haft áhuga á að ræða og lætur sér nægja að „hrauna“ í allar áttir. Hann um það en þjóðin verðskuldar annað.“


Tengdar fréttir

Hafnar ásökunum um skort á samráði

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafnar algjörlega fullyrðingum um að samningar um 131 milljarðs greiðslur á tíu árum vegna búvörusamnings hafi verið samþykktir án samráðs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira