Lífið

Fagnar með skíðahópnum sínum í Lederhosen

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Yfir fjörutíu listaverk verða til sýnis á afmælislistasýningunni sem Pétur Gautur heldur í tilefni fimmtíu ára afmælisins.
Yfir fjörutíu listaverk verða til sýnis á afmælislistasýningunni sem Pétur Gautur heldur í tilefni fimmtíu ára afmælisins. vísir/stefán
„Ég er bara mjög hamingjusamur með að verða fimmtugur, það eru ekkert allir sem verða það,“ segir myndlistarmaðurinn Pétur Gautur Svavarsson sem stendur á miklum tímamótum í dag er hann fagnar fimmtíu ára afmæli sínu.

Hann ætlar að fagna þessum merka áfanga í góðra vina hópi. „Ég er í skíðahópi og við ætlum að hittast og gera okkur glaðan dag saman,“ segir Pétur Gautur.

Það er þó ekki það eina sem hann ætlar að gera, því hann ætlar að opna afmælislistasýningu á morgun í Galleríi Fold. „Á sýningunni horfi ég fram á veginn, til baka og til hliðar þannig að hún er óhefðbundin að því leyti. Ég leyfi mér kannski að gera það sem menn gera yfirleitt ekki á sýningum, að sýna eldri myndir og slíkt en mér finnst það allt í lagi á svona tímamótum. Svo er ég líka að endurnýta gamlar hugmyndir og nálgast þær aftur og eiginlega mála þær upp á nýtt. Það er líka gaman og hollt fyrir mann að sjá hvað maður var að gera fyrir tíu, tuttugu árum. Auðvitað verður það aldrei eins en það á heldur ekki að vera það,“ segir Pétur Gautur um sýninguna.

Sýningin verður opnuð klukkan 15.00 á morgun í Galleríi Fold og mun standa til 23. mars næstkomandi.

Eins og fyrr segir ætlar Pétur Gautur að eyða stóra deginum með skíðahópnum sínum, en er hann mikill skíðamaður? „Ég er ekkert rosalega klár á skíðum en skemmtilegustu frí sem maður fer í eru skíðaferðir með góðum vinum,“ segir Pétur Gautur, sem ætlar að klæðast hinu þýska glæsidressi, Lederhosen, í gleðskapnum. „Ég sagði við fólkið að það ætti að reyna að vera í eins hallærislegum skíðafötum og hægt væri,“ bætir hann við og hlær.

Pétur Gautur hefur átt farsælan feril sem listmálari en er eitthvað sem stendur upp úr á hans ferli? „Ég hef verið mjög farsæll í mínu starfi og mér hefur alltaf verið tekið rosalega vel. Ég get alls ekki kvartað yfir velgengni og hvernig fólk hefur tekið mér. Ég lít mjög ánægður til baka og einnig fram á veginn. Það hafa auðvitað verið erfiðir tímar eins og í kringum hrunið, þegar dýrir hlutir hættu að seljast, skiljanlega, en sem betur fer held ég að þjóðin sé komin yfir þann leiðinlega kafla. Annars er ég mjög sáttur við sjálfan mig.“

Á sýningunni sem verður opnuð á morgun verða um fjörutíu verk sem fæst hafa komið fyrir sjónir almennings áður en þó verða einnig gömul og þekkt verk á sýningunni. Allir eru velkomnir á opnunina og sýninguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×