Erlent

Fjöldi hælisleitenda tvöfaldaðist í fyrra

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þúsundir flóttamanna bíða nú í Grikklandi við landamæri Makedóníu, en litlum hópum er reglulega hleypt í gegn.
Þúsundir flóttamanna bíða nú í Grikklandi við landamæri Makedóníu, en litlum hópum er reglulega hleypt í gegn. Fréttablaðið/EPA

Flóttamenn, sem sótti um hæli í aðildarlöndum Evrópusambandsins, urðu 1.255.600 á síðasta ári, eða helmingi fleiri en árið 2014.

Flestir þeirra komu frá Sýrlandi, eða 363.775 manns, en næst koma flóttamenn frá Írak og Afganistan.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, sendi frá sér í gær.
Þar kemur fram að þriðjungur fólksins, eða 441.800, héldu til Þýskalands en næstflestir sóttu um hæli í Ungverjalandi, eða 174.435. Þar næst kemur Svíþjóð með 156.110 umsóknir.

Hvert aðildarríkið á fætur öðru hefur brugðist við þessu með því að loka landamærum sínum, sem gengur þvert á meginhugsun Schengen-samkomulagsins um opin landamæri Evrópuríkja. Þetta er gert á grundvelli ákvæðis sem heimilar tímabundnar undantekningar frá meginreglunni.

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti hafa nú komið sér saman um að stefna að því að hin lokuðu landamæri verði öll opnuð fyrir lok þessa árs, þannig að Schengen-samkomulagið standi þá óhaggað.

Þau skýrðu frá þessu á blaðamannafundi í Frakklandi í gær.

Þau gera engu að síður ráð fyrir að aðildarríkin myndu um leið hætta að hleypa flóttafólki athugasemdalaust í gegnum landamærin Dmitris Avramopoulos, sem er innflytjendamálastjóri í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í gær mikilvægt að verja hin opnu landamæri Schengen-svæðisins.

„Allt sem við höfum náð fram á síðustu 60 árum er í húfi og við verðum að gera allt sem við getum til að viðhalda þessum árangri og tryggja hann,“ er haft eftir honum á fréttavef breska dagblaðsins The Guardian.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira