Innlent

Landeigendur hóta Garðabæ málsókn

Ingvar Haraldsson skrifar
Gunnar Einarsson bæjarstjóri
Gunnar Einarsson bæjarstjóri

Landeigendur á Arnarnesi hóta því að stefna Garðabæ leggi bærinn ekki fram gagntilboð í lóðir á Arnarnesi í eigu þeirra. Í bréfi sem lögmaður landeigenda sendi Garðabæ, dagsettu þann 10. febrúar, er gefinn 30 daga frestur til að leggja fram gagntilboð, ella verði viðræðum slitið og dómsmál höfðað þar sem krafist verði viðurkenningar á eignarétti þeirra og farið fram á skaðabætur.

Deilan snýst um breytingar á aðalskipulagi Garðabæjar, sem breytti verslunarlóðum í eigu landeigenda við Hegranes og Æðarnes í íbúðarlóðir og um eignarhald á Háholti. Þá vilji landeigendur að bærinn kaupi fjöruna á norðanverðu Arnarnesi.

Bæjarráð hafnaði fyrra tilboði landeigenda sem fól í sér að bærinn greiddi 150 milljónir króna og afhenti níu lóðir í fyrirhugaðri byggð í Hnoðraholti í Garðabæ í skiptum fyrir svæðin fjögur á Arnarnesi.
Bæjarráð Garðabæjar fól lögmanni sínum í vikunni að svara bréfinu í samræmi við samþykktir bæjarráðs en Garðabær hefur boðist til að borga 50 milljónir fyrir lóðirnar.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, sagði í lok janúar við Fréttablaðið að íbúðalóðirnar níu í Hnoðraholti væru metnar á um 150 milljónir króna og því næmi heildarvirði tillögu landeigenda um 300 milljónum króna, sexföldu því verði sem Garðabær telji sanngjarnt.

Í nýjasta bréfi lögmanns landeigenda eru gerðar athugasemdir við að bæjarstjórinn hafi rætt tillögur landeigenda við fjölmiðla. „Sér í lagi eru umbjóðendur mínir óánægðir með að látið sé þar í veðri vaka að tillögur umbjóðenda minna endurspegli óeðlilega verðlagningu landsréttinda þeirra, sem ekki á við rök að styðjast,“ segir í bréfinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira