Erlent

„Einn svartasti dagur í sögu tyrkneskra fjölmiðla“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælunum við ritstjórnarskrifstofurnar í dag.
Frá mótmælunum við ritstjórnarskrifstofurnar í dag. vísir/epa
Í laugardagsútgáfu dagblaðsins Zaman, sem er eitt stærsta dagblað Tyrklands, er yfirtaka stjórnvalda á blaðinu fordæmd og dagurinn sagður „einn svartasti dagur í sögu tyrkneskra fjölmiðla.“

Lögreglan réðst inn á ritstjórnarskrifstofur dagblaðsins í nótt í kjölfar úrskurðar dómstóls um að blaðið skyldi tekið yfir og kom til átaka fyrir utan ritstjórnarskrifstofurnar þar sem mótmælendur höfðu safnast saman. Lögreglan mætti mótmælendum af hörku, beitti táragasi og handtók fjölda fólks en mótmælendur hrópuðu slagorð á borð við „Það er ekki hægt að þagga niður í frjálsum fjölmiðlum.“

Fjöldi blaðamanna sneri aftur til vinnu á blaðinu í dag þrátt fyrir yfirtökuna en nokkrir greindu frá því á samfélagsmiðlum að þeir hefðu ekki lengur aðgang að ritstjórnarkerfinu eða tölvupósthólfum sínum og þá sögðu þeir að ritstjóri blaðsins, Abdulhamit Bilici, hefði verið rekinn.

Zaman er tengt Hizmet hreyfingunni, sem er undir stjórn klerksins Fethulla Gulen, sem búsettur er í Bandaríkjunum. Tyrknesk stjórnvöld líta á hreyfinguna sem hryðjuverkahóp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×