Enski boltinn

Fyrrum fyrirliði Liverpool: Gylfi var yfirburðarmaður á vellinum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Swansea City gríðarlega mikilvægan sigur á Norwich í fallbaráttuslag í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Gylfi fékk mikið hrós fyrir frammistöðu sína í leiknum en hann skoraði eina mark leiksins á 61. mínútu.

Gylfi var efstur í einkunnagjöf Sky Sports fyrir leikinn en hann fékk átta í einkunn fyrir leikinn. Gylfi fékk einnig hrós frá Phil Thompson, Knattspyrnusérfræðingi Sky Sports og fyrrum fyrirliða Liverpool, í umfjölluninni um leikinn á Liberty-leikvanginum.

„Swansea þarf fimm stig í viðbót og þá ætti liðið að vera öruggt. Sigurðsson var langbesti leikmaður vallarins," sagði Phil Thompson.  Hann hrósaði Gylfa fyrir markið en einnig fyrir aukaspyrnuna sem John Ruddy varði frábærlega frá honum fimm mínútum fyrir leikslok.

„Hversu góðir hafa síðustu dagar verið fyrir Swansea?  Fjórir dagar og sex stig. Þetta er algjörlega frábært fyrir liðið," sagði Thompson en Swansea vann 2-1 sigur á Arsenal í miðri viku.  Gylfi kom þá inná sem varamaður og lagði upp sigurmarkið.

Swansea City er með 33 stig eftir 29 leiki og er nú níu stigum frá fallsæti. Þessir fjórir dagar hafa farið langt með að bjarga liðinu frá falli og þar hefur íslenski landsliðsmaðurinn spilað mjög stórt hlutverk.

Það er hægt að sjá sigurmark Gylfa í spilaranum hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira