Enski boltinn

Framkvæmdastjóri Sunderland fór úr landi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adam Johnson er á leið í fangelsi.
Adam Johnson er á leið í fangelsi. Vísir/Getty
Margaret Byrne, framkvæmdastjóri enska úrvalsdeildarliðsins Sunderland, mun snúa aftur til starfa í þessari viku eftir að hafa dvalið í Portúgal undanfarna viku.

Ekkert hefur heyrst frá Byrne eftir að Adam Johnson, fyrrum leikmaður liðsins, var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni í síðustu viku.

Johnson var settur í bann hjá félaginu eftir að hann var handtekinn fyrir ári síðan en fékk svo að snúa aftur í liðið og spilaði með því þar til að hann játaði sekt í tveimur ákæruliðum fyrir dómi í síðasta mánuði.

Johnson neitaði sök í tveimur og alvarlegri ákærum en var svo sakfelldur í annarri þeirra, þar sem hann var ákærður fyrir að leita á stúlkuna.

Sjá einnig: Hvað vissi Sunderland um mál Johnson?

Forráðamenn Sunderland hafa haldið því fram að Johnson hafi fullyrt við sig að hann væri saklaus af öllum ákæruliðum og því kom það þeim í opna skjöldu að Johnson hafi játað á sig sök fyrir að tæla stúlkuna, sem var fimmtán ára þegar brotin áttu sér stað, og kyssa hana.

Hins vegar kom fram hjá bresku lögreglunni að hún hefði tilkynnt Margaret Byrne, framkvæmdastjóra Sunderland, um brotin. Málið hefur verið til mikillar umfjöllunar í Englandi og þingmaðurinn Clive Efford blandaði sér í umræðuna í gær.

„Sunderland þarf að svara ýmsum spurningum. Í atvinnulögum þurfa brot ekki að vera hafin yfir allan vafa til að geta gripið til aðgerða,“ sagði hann.

Sjá einnig: Johnson sekur um kynferðisbrot gegn barni

„Ef einhverjar áhyggjur voru til staðar hefði bannið [á Johnson] að vera áfram í gildi. Mér finnst þetta mjög skýrt. Félagið átti ekki annarra kosta völ en að bregðast við þessum upplýsingum og halda honum frá liðinu. Þetta snýst um að verja ung börn.“

Stuðningsmenn Sunderland eru einnig bálreiðir vegna þessa og hafa margir þeirra krafist þess að Byrne svari fyrir því hvernig félagið hagaði sér í máli Adam Johnson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×