Innlent

Húsið metið á 200 milljónir króna

Birgir Olgeirsson skrifar
Brunabótamat hússins er 197 milljónir króna en fasteignamatið 211 milljónir króna.
Brunabótamat hússins er 197 milljónir króna en fasteignamatið 211 milljónir króna. Vísir/Stefán
„Við erum að bíða eftir upplýsingum frá slökkviliðinu,“ segir Hilmar Ægir Þórarinsson einn eigenda hússins að Grettisgötu 87 sem brann í gærkvöldi. Hilmar segir enga ákvörðun hafa verið tekna varðandi hvort húsið verði rifið eða gert upp. Tjónið sé mikið en ekki er búið að meta það til fulls.

„Okkur er meinaður aðgangur að þessu að svo stöddu. Við erum bara að bíða eftir að heyra frá slökkviliðinu,“ segir Hilmar.

Brunabótamat hússins er 197 milljónir króna en fasteignamatið 211 milljónir króna.

Eldsins varð vart upp úr klukkan átta í gærkvöldi og var íbúum ráðlagt að halda sig innan dyra þar sem vitað var um hættuleg efni inni í húsinu.

Sumir yfirgáfu heimili sín og leituðu til ættingja eða hópuðust saman í strætisvögnum, þar sem fólk úr viðbragðsteymi Rauða krossins tók við því.

Allt tiltækt slökkvilið á vakt og á frívakt var kallað út og tóku um 90 manns þátt í slökkvistarfinu þegar mest var, og var nærliggjandi götum lokað. Milligólf og þak hússins eru úr strengjasteypu, sem getur skroppið saman í miklum hita, þannig að ekki var óhætt að senda slökkviliðsmenn inn í húsið vegna hættu á hruni.

Um klukkan fjögur í nótt var fækkað verulega í liðinu, enda var þá búið að ráða niðurlögum eldsins.

Eldsupptök eru ókunn en engar upplýsingar hafa fengist frá lögreglunni í morgun. Greint var frá því á vef MBL.is í gærkvöldi að lögreglan leitaði tveggja manna sem sáust yfirgefa húsið skömmu áður en eldurinn kom upp. Er tilkynningu að vænta frá lögreglu vegna brunans.

Vísir/Stefán

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×