Körfubolti

Framlenging: "Þvílík djöfulsins meðalmennska hjá ÍR“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lið ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta var til umræðu í framlengingu í Dominos-Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

Spurt var: „Hver er framtíðin í Breiðholtinu?“ eftir að ÍR-ingar töpuðu fyrir Keflavík í gærkvöldi og ljóst varð að Breiðholtsliðið endar í níunda eða tíunda sæti deildarinnar fimmta árið í röð.

Fannar Ólafsson var nokkuð spenntur fyrir framtíð ÍR-liðsins og vill að liðið haldi þjálfaranum Borce Ilevski. Hann sér fram á nokkuð spennandi tíma hjá þessu unga liði.

Jón Halldór Eðvaldsson var ekki sammála. „Með allri virðingu fyrir ÍR sem er búið að vera til mjög lengi þá er bara þvílík djöfulsins meðalmennska í gangi þarna. Það er viðbjóðslegt að horfa á þetta,“ sagði hann.

„Hvað búa margir í Breiðholtinu? Þeir hljóta að vera að fá meiri peninga en önnur lið. Það hlýtur bara að vera.“

Fannar skaut þá inní: „Þetta snýst um yngri flokka,“ en Jón Halldór var fljótur að taka orðið aftur:

„Nei. Þeir eru á höfuðborgarsvæðinu. Takið bara hina gaurana á höfuðborgarsvæðinu sem eru ekki að fá tækifæri og látið þá spila. Hættið þessari meðalmennsku. Náið ykkur í almennilega leikmenn og gerið þetta almennilega.“

„Að vera í 8.-10. sæti fyrir ÍR í efstu deild í körfubolta á Íslandi fimm ár í röð er ekki viðeigandi,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×