Sport

Megatron á leið í niðurrif

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Megatron gengur til búningsherbergja eftir síðasta leik sinn í NFL-deildinni.
Megatron gengur til búningsherbergja eftir síðasta leik sinn í NFL-deildinni. vísir/getty

Einn besti útherji NFL-deildarinnar, Calvin Johnson, hefur lagt skóna á hilluna aðeins þrítugur að aldri.

Johnson hefur átt magnaðan feril með Detroit Lions þó svo árangur liðsins hafi ekki verið í samræmi við hans spilamennsku.

Alls skoraði Johnson, sem var alltaf kallaður Megatron, 83 snertimörk á ferlinum. Hann greip boltann 731 einu sinni fyrir samtals 11.619 jördum.

Það gera 86,1 jardar í leik sem er það næstmesta í sögu útherja NFL-deildarinnar. Julio Jones, leikmaður Atlanta, er með 95,4 jarda að meðaltali í leik núna og er enn að spila.

Enginn útherji í sögu deildarinnar hefur gripið bolta fyrir eins mörgum jördum á einu tímabili. Leiktíðina 2012 var hann með 1.964 jarda. Sjö tímabil fór hann yfir 1.000 jardana sem þykir vera mjög gott.

Skrokkurinn er farinn að gefa mikið eftir og Johnson vill ekki eyðileggja hann með því að halda áfram að spila í deildinni.

Johnson er enn ein stórstjarnan sem NFL missir eftir að tímabilinu lauk. Aðrar stjörnur deildarinnar sem eru sestar í helgan stein eru Peyton Manning, Marshawn Lynch og Charles Woodson.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira