Innlent

Þrjú nálgunarbönn gegn konu sinni á innan við ári

Bjarki Ármannsson skrifar
Þetta er í þriðja sinn sem manninum er gert að sæta nálgunarbanni.
Þetta er í þriðja sinn sem manninum er gert að sæta nálgunarbanni. Vísir/Getty

Hæstiréttur hefur úrskurðað karlmann í fjögurra mánaða nálgunarbann gagnvart eiginkonu sinni og börnum tveimur. Þetta er í þriðja sinn sem manninum er gert að sæta nálgunarbanni auk þess sem hann skrifaði í síðasta mánuði undir yfirlýsingu þar sem hann skuldbindur sig til þess að koma ekki á heimili konunnar eða setja sig í samband við hana.

Manninum var tvisvar gert að sæta nálgunarbanni gagnvart fjölskyldu sinni í fyrra vegna gruns um ítrekað ofbeldi gegn konunni, sem börn þeirra urðu vitni að. Lýsti konan því þá við skýrslutöku að maðurinn hefði meðal annars kýlt hana ítrekað í andlitið og sparkað í hana.

Að því er segir í úrskurðinum, lýsti konan í skýrslutöku hjá lögreglu í ágúst síðastliðnum yfir einlægum vilja til þess að fella nálgunarbannið úr gildi. Henni þætti hegðun mannsins hafa breyst og afstaða hans til barnanna batnað auk þess sem hún teldi sjálfa sig sterkari eftir að hafa leitað sér aðstoðar.

Málið rataði þó aftur á borð lögreglu í síðasta mánuði þegar konan greindi frá hótunum og áreiti af hálfu mannsins. Maðurinn neitaði ásökununum en honum var þá samt sem áður gert að undirrita fyrrnefnda yfirlýsingu.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að gögn málsins bendi til að maðurinn hafi verið fyrir utan heimili konunnar eftir að hann skrifaði undir yfirlýsinguna og margsinnis hringt í og sent dóttur þeirra skilaboð símleiðis.

Hæstiréttur sneri við úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, sem hafði hafnað kröfu Lögreglustjórans á Suðurlandi um nálgunarbann.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira