Innlent

Varað við stormi, úrkomu og vatnavöxtum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Varað er við stormi, meira en 20 metrum á sekúndu um landið vestanvert í nótt, en austan til á morgun.
Varað er við stormi, meira en 20 metrum á sekúndu um landið vestanvert í nótt, en austan til á morgun. Vísir/GVA
Veðurstofa Íslands varar við úrkomu og vatnavöxtum í tilkynningu sem hún hefur sent frá sér en spáð er talsverðri rigningu um landið sunnan-og vestanvert seint í dag og fram yfir hádegi á morgun. Búast má við að mesta úrkoman verði í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 50 millimetra.

Sérstaklega er varað við vexti í ám á Snæfellsnesi, á Hvítársvæðinu (bæði vestur og suður af Langjökli), kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Þá er fólk beðið um að sýna aðgát í nágrenni vatnsfalla og sérstaklega ef fara þarf yfir ár, þar sem vöð geta orðið varhugaverð.

Þá er á vef Veðurstofunnar varað við stormi, meira en 20 metrum á sekúndu um landið vestanvert í nótt, en austan til á morgun. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að undir Hafnarfjalli og á norðanverðu Snæfellsnesi sé reiknað með hviðum á bilinum 30 til 40 metrar á sekúndu frá því undir miðnætti í kvöld og fram undir kl. 09 í fyrramálið.

Um helgina er síðan útlit fyrir áframhaldandi suðlægar áttir með vætusömu og mildu veðri en líkur eru á að á sunnudaginn verði fyrsta asahláka ársins með miklum hlýindum. Því má gera ráð fyrir vatnavöxtum um mest allt land og að afrennsli gæti orðið mjög mikið. Við slíkar aðstæður gæti skriðuhætta aukist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×