Innlent

Kannar hvort koma eigi á gjaldskyldu á Vesturgötu, Mýrargötu, Nýlendugötu og Bakkastíg

Atli Ísleifsson skrifar
Í síðasta mánuði var greint frá því að til standi að gera bílastæðin í Brautarholti, Skipholti og næsta nágrenni gjaldskyld.
Í síðasta mánuði var greint frá því að til standi að gera bílastæðin í Brautarholti, Skipholti og næsta nágrenni gjaldskyld. Vísir/AFP

Bílastæðasjóður hefur leitað eftir umsögnum íbúa við Vesturgötu, Mýrargötu, Nýlendugötu og Bakkastíg í Reykjavík um hvort áhugi sé fyrir því hvort gera eigi bílastæði við göturnar gjaldskyld.

Í bréfi Bílastæðasjóðs til íbúa við göturnar segir að fyrir liggi ósk frá íbúum við Nýlendugötu um gjaldskyldu á svæðinu þar sem íbúar þar og í nærliggjandi götum hafi ítrekað lent í bílastæðavandræðum þar sem uppbygging á svæðinu hafi aukist verulega.

„Ef vilji er fyrir hendi hjá íbúum Nýlendugötu, Mýrargötu, Bakkastígs og Vesturgötu milli Ægisgötu og Seljavegs að gera bílstæði gjaldskyld þá er Bílastæðasjóður tilbúinn að framkvæma það,“ segir í bréfinu og er bent á að reynslan sýni að með gjaldskyldu sé mögulegt að hafa veruleg áhrif á hverjir noti tiltekin stæði og í hvaða tilgangi.

Íbúar með lögheimili við götu þar sem bílastæði eru gjaldskyld og eru ekki með bílastæði á lóð sinni eiga þess kost að sækja um sérstök bílastæðakort íbúa sem veita heimild til að leggja einni bifreið án endurgjalds innan þess svæðis sem íbúakortið tekur til.

„Bílastæðasjóður leggur mikla áherslu á samráð og samvinnu í málum sem þessu, og eru því allir hlutaðeigandi hvattir til að láta skoðun sína í ljós. Til þess að þetta samráð skili tilætluðum árangri er mjög mikilvægt að íbúar komi skoðun sinni á framfæri hvort sem þeir eru með eða á móti gjaldskyldu, innan 2ja vikna frá dagsetningu þessa bréfs. Ef lítil viðbrögð verða við bréfi þessu verður litið svo á að ekki sé áhugi fyrir gjaldskyldu,“ segir í bréfinu sem dagsett er 1. mars síðastliðinn.

Í síðasta mánuði var greint frá því að til standi að gera bílastæðin í Brautarholti, Skipholti og næsta nágrenni gjaldskyld.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira