Innlent

Holtavörðuheiðin lokuð vegna veðurs

Atli Ísleifsson skrifar
Vegfarendur sem ætluðu sér að fara yfir Holtavörðuheiði er bent á að vegir nr. 59 og 60, Laxárdalsheiði og Brattabrekka, eru opnir en þar er hálka, þæfingur og einhver skafrenningur.
Vegfarendur sem ætluðu sér að fara yfir Holtavörðuheiði er bent á að vegir nr. 59 og 60, Laxárdalsheiði og Brattabrekka, eru opnir en þar er hálka, þæfingur og einhver skafrenningur. Vísir/GVA

Lokað er um Víkurskarð, Mosfellsheiði, Holtavörðuheiði og austur yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi vegna veðurs. Auk þess er lokað um Siglufjarðarveg vegna snjóflóða.

Á vef Vegagerðarinnar segir að vegfarendur sem hafi ætlað sér að fara yfir Holtavörðuheiði sé bent á að vegir númer 59 og 60, Laxárdalsheiði og Brattabrekka, séu opnir en þar sé hálka, þæfingur og einhver skafrenningur.

„Hálkublettir og óveður er á Kjalarnesi. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en annars er hálka eða hálkublettir á Suðurlandi.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi en þó er lokað um Holtavörðuheiði. Á Bröttubrekku er snjóþekja og skafrenningur. Á Snæfellsnesi er ófært yfir Fróðárheiði en hálka og óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er ófært um Steingrímsfjarðarheiði en unnið er að mokstri þar og einnig í Ísafjarðardjúpi. Hálka er á Hálfdán og Mikladal en snjóþekja á Kleifaheiði og Gemlufallsheiði.

Snjóþekja eða þæfingur ásamt skafrenning eða snjókomu er á flestum leiðum á Norðurlandi. Ófært er um Þverárfjall og þæfingsfærð er á nokkrum útvegum, lokað er um Siglufjarðarveg. Víkurskarð er lokað.

Á Austurlandi er lokað um Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði en ófært er um Vatnsskarð eystra. Þæfingsfærð og stórhríð er á Fagradal og þungfært og stórhríð á Oddsskarði. Autt er að mestu með suðaustur ströndinni en þó hálkublettir á köflum,“ segir á vef Vegagerðarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira