Enski boltinn

Johnson: Kom ekki vel fram við kærustuna mína og dóttur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adam Johnson fyrir utan réttarsalinn í dag.
Adam Johnson fyrir utan réttarsalinn í dag. Vísir/Getty

Adam Johnson, knattspyrnumaðurinn sem var kærður fyrir kynferðislegt athæfi með barni, bar í dag vitni í dómssal. Johnson var áður leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Sunderland en hefur nú verið rekinn frá félaginu.

Réttarhöldin hófust í síðustu viku og lýsti þá stúlkan, sem var fimmtán ára þegar meint brot áttu sér stað, samskiptum þeirra sem að hennar sögn fólu í sér kynferðislega hegðun þeirra á milli.

Sjá einnig: Fórnarlamb Johnson vildi vernda hann

Johnson hefur gengist við því að hafa vingast við stúlkuna í þeim tilgangi að koma á kynferðislegu sambandi við hana sem og einni af þremur kærum um kynferðislegt athæfi með barni. Hann neitar sök í hinum tveimur kæruliðunum.

„Ég kom ekki vel fram við kærustu mína og dóttur,“ viðurkenndi hann í dag en kærasta hans, Stacey Flounders, hefur staðið við hlið hans á meðan réttarhöldunum hefur staðið.

Stacey Flounders, kærasta Johnson. Vísir/Getty

Vildi áritaðar fótboltatreyjur
Hann játaði að hafa kysst stúlkuna og viðurkennir að hann hafi vitað að það væri lögbrot. En hann neitar að hann hafi ætlað sér að hafa kynmök með stúlkunni.

Johnson staðfestir að hann hafi fengið vinabeiðni frá stúlkunni á Facebook sem hann samþykkti. Hann skiptist svo á símanúmerum við hana því hún hafði beðið hann um að áritaðar fótboltatreyjur.

Sjá einnig: Stúlkan segist „algjörlega hata“ Adam Johnson

Hann segir að í fyrstu hafi samband þeirra verið „platónskt“ og að hún hefði reglulega komið að máli við hann og beðið hann um áritaðar treyjur. Engu að síður bað hann um að þau myndu hittast þegar búið væri að dimma svo að síður yrði borið kennsl á hann auk þess sem að hann bað stúlkuna um að eyða skilaboðum sem hann hafði sent henni.

Hann segir að það hafi verið ýmsar ástæður fyrir því síðarnefnda. „Ég átti kærustu, ég vissi hvað væri sagt ef það væri vitað að ég væri að tala við stúlku á þessum aldri og ég vildi ekki að hún myndi segja vinum sínum sem myndu svo koma til mín og biðja um treyjur,“ sagði Johnson í vitnisburði sínum.

Johnson í leik með Sunderland. Vísir/Getty

Sendi fleiri konum skilaboð
Johnson las þó yfirlýsingu áður en vitnaleiðslurnar hófust þar sem hann gekkst við hegðun sinni, sem hann sagði að hefði verið heimskuleg, og bað hann stúlkuna afsökunar. „Hún er barn og hefði átt að vera örugg í návist minni.“

Hann viðurkennir að sum skilaboðanna sem hann sendi mætti túlka sem daður. Hann segist skammast sín fyrir þau og að honum hafi leiðst. Enn fremur viðurkenndi hann að hafa sent fleiri konum skilaboð.

Sjá einnig: Johnson bað um nektarmynd af stúlkunni

Johnson var einnig spurður af hverju hann hafi verið að leita sér upplýsinga um netinu um hvenær einstaklingi er heimilt samkvæmt lögum að stunda kynlíf en hann segir að það hafi tengst umræðum sem hann átti við liðsfélaga sína hjá Sunderland og væri algjörlega ótengt þessu máli.


Tengdar fréttir

Fórnarlamb Johnson vildi vernda hann

Knattspyrnumanninum Adam Johnson er gefið að sök að hafa stundað kynferðislegt athæfi með fimmtán ára stúlku, sem bar vitni í réttarhöldunum í gær.

Sunderland rekur Johnson

Enska úrvalsdeildarfélagið Sunderland hefur rekið Adam Johnson en hann hefur játað á sig kynferðisbrot gegn barni.

Johnson játar kynferðisbrot gegn barni

Adam Johnson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Sunderland, hefur játað fyrir rétti að hafa brotið kynferðislega gegn stúlku undir samræðisaldri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira