Innlent

Bólusetning við heilahimnubólgu B ekki á dagskrá

Ásgeir Erlendsson skrifar

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld var rætt við móður 17 mánaða stúlku sem lést úr heilahimnubólgu. Hún sagði mikilvægt að íslensk heilbrigðisyfirvöld tækju upp bólusetningu á heilahimnubólgu B líkt og bresk yfirvöld gerðu á síðasta ári. Á Íslandi eru börn bólusett gegn heilahimnubólgu, en ekki heilahimnubólgu B. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að ekki hafi verið alvarlega rétt i að hefja slíka bólusetningu hér á landi.

„Það hefur ekki komið alvarlega til tals enda hefur gengið mjög erfiðlega að búa til svona bóluefni og það er bara fyrst núna í fyrra að einhver þjóð byrjaði að bólusetja öll börn við meningókokkum B og það eru Bretar“.

Heilahimnubóla B er ekki algeng hér á landi en um eitt til tvö tilfelli koma upp hér á landi árlega. Þórólfur segir ýmsa þætti þurfi að koma til svo skoðað sé að hefja bólusetningu.

„Þetta er alvarlegur sjúkdómur eins og við vitum og það má segja það að eitt alvarlegt tilfelli, eitt dauðsfall, sé kannski nóg. Það þarf að vega það og meta hvort þetta bóluefni passi vel við þær bakteríur sem hafa verið í gangi hér á landi. Svo þarf að tryggja fjármagn til verkefnisins.“

Lítil reynsla er komin á bóluefni við heilahimnubólgu B enda hófu Bretar að bólusetja í september.

„Það er búið að reynast svolítið erfitt að búa til bóluefni gegn þessari bakteríu og hefur reynst erfiðara en gegn mörgum öðrum. Vonandi mun reynslan sýna að þetta bóluefni er gott og öruggt. Þá getur farið fram alvarleg umræða um það hvort nota eigi það hér á landi. “Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira