Viðskipti innlent

Reisa nýtt álver í Noregi sem sparar 15% raforku

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grafísk mynd af álveri Norsk Hydro á Karmöy, eða Körmt, eins og eyjan heitir í íslenskum fornritum.
Grafísk mynd af álveri Norsk Hydro á Karmöy, eða Körmt, eins og eyjan heitir í íslenskum fornritum. Grafík/Norsk Hydro.
Norsk Hydro hefur tilkynnt um 65 milljarða króna fjárfestingu í nýrri tegund álvers, sem á að vera það umhverfisvænasta í heimi. Ef íslensku álverin fengju samskonar tækni gæti sparast orka sem er ígildi þriggja Búðarhálsvirkjana. Greint var frá verkefninu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Þetta verður tilraunaverksmiðja sem reist verður við álver Norsk Hydro á Karmöy skammt frá Haugasundi og á framleiðslan að hefjast á síðari hluta næsta árs. Framleiðslugetan verður um 75 þúsund tonn á ári. Norskir fjölmiðlar segja að ef olíuiðnaður sé undanskilinn sé þetta stærsta einstaka fjárfesting í Noregi frá því álver Hydro á Sunndalseyri var stækkað fyrir tólf árum.

Svo mikilvæg þykja skilaboðin fyrir loftlagsumræðuna og norskan efnahag um þessar mundir að forsætisráðherrann Erna Solberg ákvað sjálf að vera viðstödd þegar ráðamenn Norsk Hydro kynntu ákvörðun sína í síðustu viku. Þeir segja að með nýrri tækni sparist fimmtán prósent í raforkunotkun á hvert tonn áls og jafnframt verði losun úrgangsefna sú minnsta sem þekkist í áliðnaði. Þannig verði þetta umhverfisvænasta álver heims og ganga sumir svo langt að segja að þetta verði kannski stærsta framlag Norðmanna til umhverfismála heimsins til þessa.

Tæknin gengur út á það ná betri stjórn á rafsegulbylgjum við rafgreiningu í álkerjunum en þannig þarf minni rafstraum við framleiðsluna. Norskt ríkisfyrirtæki á sviði orkuskipta, Enova, greiðir 37 prósent kostnaðar og var ríkisstyrkurinn samþykktur af ESA, Eftirlitsstofnun EFTA.

Í ljósi þess að um tveir þriðju hlutar á raforkuframleiðslu á Íslandi fara til álvera verður athyglisvert fyrir Íslendinga að fylgjast með hvernig Norsk Hydro gengur að innleiða þessa nýju tækni í sín álver. Álverin þrjú á Íslandi nota um þrettán þúsund gígavattsstundir á ári og ef fimmtán prósenta orkusparnaður næðist hjá þeim jafngilti það framleiðslugetu á við þrjár Búðarhálsvirkjanir.

Bókfærður heildarkostnaður Landsvirkjunar vegna Búðarhálsvirkjunar er um 230 milljónir bandaríkjadala, eða nærri 30 milljarðar króna.

Búðarhálsvirkjun er nýjasta stórvirkjun Íslendinga. Smíði hennar kostaði um 30 milljarða króna.Mynd/Stöð 2.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×