Innlent

Telja svínað á sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Auðunn

Stjórn Svínaræktarfélags Íslands hefur lýst yfir vonbrigðum með niðurstöður búvörusamningana, sem undirritaðir voru fyrir helgina. Þeir segja framlög ríkisins til greinarinnar ekki vera í samræmi við stuðning til svínaræktenda í nágrannaríkjum okkar og að verulega sé vegið að rótum svínaræktar á Íslandi.

Stjórnin íhugar hvort hagsmunum svínaræktenda sé betur borgið utan Bændasamtaka Íslands.

Í yfirlýsingu frá stjórninni segir að framlög til uppbyggingar svínabúa séu samtals 440 milljónir króna, samkvæmt samningunum sem gilda til tíu ára. Það séu einu framlög ríkisins til greinarinnar. Þá segi óháðir sérfræðingar að kostnaður við nauðsynlegar breytingar vegna hertum ákvæðum nýrrar reglugerðar um aðbúnað í svínarækt sé um 2,5 til 3,2 milljarðar króna.

„Með íþyngjandi reglugerð um aðbúnað, auknum heimildum til innflutnings á svínakjöti frá og með 2017 og nú síðast nýjum búvörusamningum er vegið alvarlega að rótum svínaræktar á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórnin segir að við gerbreyttar forsendur, sem séu alfarið að tilstuðlan ríkisins, hljóti það að vera sanngjörn krafa að úrelding verði hluti af nýju rekstrarumhverfi. Þannig geti bændur sem vilja hætta rekstri, gert það án þess að taka með sér skuldaklafa.

„Þá er gerð nýrra búvörusamninga með þeim hætti að Svínaræktarfélag Íslands hlýtur að skoða það alvarlega hvort hagsmunum þess er betur borgið utan Bændasamtaka Íslands.“ Boðað hefur verið til fundar þann 2. mars og fyrir fundinum liggur tillaga um að félagið slíti sig frá Bændasamtökunum.


Tengdar fréttir

Nýr samningur skapi smjörfjöll

Hagfræðiprófessor býst við offramleiðslu mjólkur í kjölfar nýrra búvörusamninga. Bændur verði festir í kerfi sem hefti nýsköpun og lítt sé hugað að hag neytenda. Íbúar SV-lands niðurgreiði mjólk fyrir aðra.

Verja 132 milljörðum í landbúnað á tíu árum

Ríkið hyggst leggja 132 milljarða króna í styrki til landbúnaðar næsta áratug samkvæmt nýjum búvörusamningi sem undirritaður var í gær. Árlegt framlag hækkar um 900 milljónir. Umbreytingasamningur segir landbúnaðarráðherra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira