Innlent

Deilu flugumferðarstjóra vísað til ríkissáttasemjara

Birgir Olgeirsson skrifar
Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir enga framtíð í því að halda flugumferðarstjórum niðri í launum.
Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir enga framtíð í því að halda flugumferðarstjórum niðri í launum. vísir/anton brink.

Kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra við Isavia, sem annast rekstur allra flugvalla hér á landi, hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Er um að ræða sameiginlega ákvörðun samninganefndar flugumferðarstjóra og samninganefndar Samtaka atvinnulífsins, sem fer með samningsumboðið fyrir Isavia, sem var tekin fyrir hádegi í dag.

Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, Sigurjón Jónasson, segir að viðræðum hafi miðað afar hægt og menn sammála um að lengra verður ekki komist í bili. Spurður hvaða samningsatriði það eru sem standa í mönnum segist hann vilja ekki tjá sig um kröfur flugumferðarstjóra í fjölmiðlum.

Hins vegar segir hann enga framtíð í því fyrir flugumferðarstjóra eða ferðamennsku til og frá landinu að halda flugumferðarstjóra niðri í launum og í mikilli eftirvinnu.

„Vegna þess að fjölgun í stéttinni er í miklu ósamræmi við þetta álag sem hefur hvolfst yfir okkur á undanförnum misserum. Fyrir flugumferðarstjóra, alveg eins og farþegana sem á þá treysta, þá er hóflegt vinnuálag og eðlilegur hvíldartími mjög mikilvægur og viðsemjendur okkar verða einfaldlega að sýna þessum grundvallar atriðum okkar skilning,“ segir Sigurjón. 

Gert er ráð fyrir að ríkissáttasemjari boðið til fundar í næstu viku. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira