Innlent

Saksóknari segir seinagang skýrast af manneklu og fjárskorti

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Ríkissaksóknari tók ákvörðun um áfrýjun Aserta-málsins en ákvað svo fjórtán mánuðum síðar að falla frá áfrýjun án þess að ný gögn hefðu komið fram. Einn verjenda í málinu telur augljóst að ríkissaksóknari hafi áfrýjað að mjög vanhugsuðu máli og haldið lífi í málinu að tilefnislausu.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, Fjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans blésu til blaðamannafundar hinn 29. janúar 2010 þar sem greint var frá því að fjórir Íslendingar væru grunaðir um brot á gjaldeyrislögum vegna viðskipta sænska félagsins Aserta AB. Eftir fimm ár í réttarkerfinu voru sakborningarnir málinu sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra og tók ríkissaksóknari strax ákvörðun um áfrýjun dómsins til Hæstaréttar. Það var svo fyrir helgi sem fallið var frá áfrýjun málsins.

Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður og verjandi eins hinna ákærðu í málinu telur þetta mjög gagnrýniverð vinnubrögð.

„Það er augljóst að ríkissaksóknari hefur áfrýjað málinu að mjög vanhugsuðu máli þarna í desember 2014 og lætur núna 14 mánuði líða án þess að gera nokkuð að því er virðist. Virðist koma núna, skoða gögnin og héraðsdóminn, átta sig á því að hann er algjörlega kórréttur og fellur þá frá áfrýjun. En með þessu auðvitað framlengdi ríkissaksóknari lífið í málinu um fjórtán mánuði algjörlega að tilefnislausu,“ segir Arnar Þór. 

Hvers vegna tók það embættið fjórtán mánuði að komast að þessari niðurstöðu? Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að fyrri því séu margþættar ástæður en sú sem vegi þyngst á metunum skrifist á fjárskort embættis ríkissaksóknara.

„Ástæðan fyrir því að þetta gengur ekki hraðar en þetta og ástæðan fyrir því að ríkissaksóknari veitir ekki sínum viðskiptavinum, ef hægt er að nota það orð, betri þjónustu er málaþunginn. Við komumst ekki yfir þessi mál sem við erum með á eðlilegum hraða og þess vegna hafa orðið tafir í þessu máli og fleiri málum. Það er ástæðan, málaþunginn hjá embættinu og skeytingarleysi fjárveitingarvaldsins til þess að tryggja að þessi höfuðstofnun ákæruvaldsins geti sinnt sínum störfum þannig að sómi sé af,“ segir Helgi Magnús.  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira