Innlent

Birgitta biðst afsökunar á sínum hlut í deilum innan Pírata

Birgir Olgeirsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata biður sérstaklega frjálshyggjumanninn Ólaf Evert afsökunar í opna bréfinu til Pírata.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata biður sérstaklega frjálshyggjumanninn Ólaf Evert afsökunar í opna bréfinu til Pírata. Vísir/Stefán
„Það er mér ljúft og skylt að biðja opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í opnu bréfi til Pírata og stuðningsmanna þeirra.

Harðar deilur hafa verið innan Pírata undanfarið á Pírataspjallinu á Facebook þar sem Birgitta hefur verið sökuð um að hafa reynt að taka sér titil leiðtoga, formanns eða kapteins flokksins án umboðs frá Pírötum. Birgitta neitaði þessum ásökunum og sagði þetta oftast nær misskilning fjölmiðlamanna sem hún hefði gefist upp á að reyna að leiðrétta.

Hægt að bregðast við ef Píratar eru rangtitlaðir í texta

Helgi Hrafn tjáði sig um málið á Pírataspjallinu í gær þar sem hann sagði engan geta stjórnað því hvernig Píratar eru titlaðir í fjölmiðlum en hægt væri að bregðast við því eftir á ef það kom fram í texta.

Sjá einnig: Helgi Hrafn segir að leysa þurfi samskiptavanda innan Pírata

Sagði Helgi að sú tilraun Pírata að hafa flokkinn án formanns hafa mistekist og kominn væri tími á að íhuga kerfi þar sem einhver hafi skýrt umboð til að kalla sig formann flokksins.

Bitur reiði kraumaði í Helga vegna ummæla Birgittu

Þá sagði Helgi það skjóta skökku við að Birgitta, sem er í valdastöðu, setti sig í fórnarlambsstellingar eftir að hafa rægt aðra. Átti Helgi Hrafn þar við ummæli Birgittu um Ólaf Evert Úlfsson, sem fór úr Sjálfstæðisflokknum í Pírata. Sagðist Birgitta ætla að bjóða sig fram aftur á næsta kjörtímabili til að koma í veg fyrir að frjálshyggjumenn eins og Ólafur Evert tækju yfir Pírata.

Helgi sagði bitra reiðið hafa kraumað í sér yfir því hvernig Birgitta talaði um Ólaf Evert opinberlega.

Biður Ólaf Evert afsökunar

Í opna bréfinu til Pírata biður Birgitta Ólaf Evert formlega afsökunar. „Ég vil biðja Ólaf Evert formlega og innilega afsökunar vegna ótta míns um að kosningakerfi okkar verði misnotað af þeim er aðhyllast frjálshyggju í anda frjálshyggjufélagsins eftir að hann skoraði á félaga á facebook síðu frjálshyggjufélagsins til að ganga í Pírata til að tryggja stefnu sem þeim hugnast í kosningakerfinu okkar. Það hefur komið fram að það hafi alls ekki verið ætlan hans heldur vildi hann bara að hvetja þá er aðhyllast frjálshyggju til að verða Píratar og auðvitað mega allir vera með í þessum flokki svo framarlega sem þeir aðhyllast grunnstefnu og þær stefnur sem Píratar hafa þegar lýst fyrir sem kosningabærum stefnumálum. Því vil ég segja við Ólaf, velkominn í Pírata.“

Segist vera mannleg og gera mistök

Birgitta segist vera mannleg og gera mistök en segist alltaf tilbúin að leiðrétta þau og mæta gagnrýni. „Ég er ekki endilega alltaf sammála öllum og finnst gott að við höfum ólíkar skoðanir um mikilvæg mál, það tryggir að við erum alltaf á jaðarbrúninni og erum alltaf vakandi,“ segir Birgitta.

Hún biður Pírata um að bera klæði á vopnin og leita að því sem sameinar þá frekar en sundra. „Okkur hefur verið falið mikið traust og í slíku trausti felst mikil ábyrgð.“

Bréf Birgittu til Pírata má lesa í heild hér fyrir neðan:

Kæru Píratar


Við erum nýtt pólitískt afl sem hefur laðað að sér fólk frá ólíkum pólítískum pólum og það í eðli sínu leiðir til togstreitu. Það sem gerist líka alltaf þegar um völd er að ræða að það upphefst valdabarátta um skoðanir og stefnur. Ég er mjög meðvituð um þetta og þess vegna þegar ég tók þátt í stofnun Pírata á Íslandi lagði ég til að við myndum hafa flatan strúktúr og dreifa ábyrgð og völdum. Það gekk ágætlega þangað til að við fórum að mælast með mikið fylgi og því hafa skapast umræður um það hvort við ættum ekki að hafa formleg völd þar sem valdastöður verða formfastar.

Formlegar valdastöður hafa ávallt leitt til formfestu á völdum sem eru hluti af vanda fortíðar og nútíðar. Ég vona að valdefling og valddreifing verði hluti af langtíma stefnu hjá flokknum í stað þess að formfesta valdastöðurnar en fanga umræðum um lausnir ef fólk er ósátt.

Nú erum við að takast á við eitt mikilvægasta mál kjörtímabilsins. Breytingar á stjórnarskrá. Það er mjög mikilvægt að við missum ekki sjónar á stóru myndinni.

Sú misklíð sem hefur um langa hríð fengið að grassera innan flokksins er mein sem þarf að laga og fyrst aðrir félagar hafa ákveðið að opna á þá umræðu þá langar mig að koma eftirfarandi á framfæri.

Þó að mér finnist mjög leiðinlegt að taka Ólaf Evert út fyrir sviga, þá vill halda því til haga að ég hef aldrei nafngreint hann opinberlega, en geri það nú því ég vil biðja Ólaf Evert formlega og innilega afsökunar vegna ótta míns um að kosningakerfi okkar verði misnotað af þeim er aðhyllast frjálshyggju í anda frjálshyggjufélagsins eftir að hann skoraði á félaga á facebook síðu frjáshyggjufélagsins til að ganga í Pírata til að tryggja stefnu sem þeim hugnast í kosningakerfinu okkar. Það hefur komið fram að það hafi alls ekki verið ætlan hans heldur vildi hann bara að hvetja þá er aðhyllast frjálshyggju til að verða Píratar og auðvitað mega allir vera með í þessum flokki svo framarlega sem þeir aðhyllast grunnstefnu og þær stefnur sem Píratar hafa þegar lýst fyrir sem kosningabærum stefnumálum. Því vil ég segja við Ólaf, velkominn í Pírata.

Ég er mannleg og geri mörg mistök, en ég er alltaf tilbúin til að leiðrétta mistök mín og alltaf tilbúin að mæta gagnrýni. Ég er ekki endilega alltaf sammála öllum og finnst gott að við höfum ólíkar skoðanir um mikilvæg mál, það tryggir að við erum alltaf á jaðarbrúninni og erum alltaf vakandi.

Það er mér ljúft og skilt að biðja opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver.

Ég vil biðja ykkur um að bera klæði á vopnin ef einhver eru og leita að því sem sameinar okkar frekar en sundrar. Okkur hefur verið falið mikið traust og í slíku trausti felst mikil ábyrgð.

Píratar í öðrum heimshornum hafa orðið fyrir sambærilegum áskorunum í meðbyr og þar mistókst að finna lausnir. Þar var ákveðið að takast á um allt á milli himins og jarðar fyrir opnum tjöldum og það endaði með algeru hruni á trausti. Það er eitt að tala efnislega um ólík pólitísk sjónarmið, annað er að takast á um persónuleg ágreiningsmál. Það vill enginn sem er að koma í partý lenda í rifrildi gestgjafana. Þá fer fólk eitthvað annað og það væri hörmulegt að þeir sem finna von í okkar málflutningi um pólitískar lausnir missi þá von.

Það blasir við einstakt tækifæri til umbóta í samfélaginu okkar, látum það verða okkar leiðarljós.


Tengdar fréttir

Hefur ekki áhyggjur af klofningi í röðum Pírata

Mjög skiptar skoðanir eru meðal pírata um hvort samþykkja eigi tillögur að breytingar á stjórnarskrá, þrátt fyrir að þær gangi ekki nógu langt að þeirra mati. Þingmaður pírata hefur þó ekki áhyggjur af því að málið kljúfi stærsta flokk landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×