Körfubolti

Helena hefur tekið flest skot af öllum leikmönnum í Evrópukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir verður í stóru hlutverki í Höllinni í kvöld.
Helena Sverrisdóttir verður í stóru hlutverki í Höllinni í kvöld. Vísir/Stefán
Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, er skotglaðasti leikmaður undankeppni EM 2017 eftir þrjár fyrstu umferðirnar.

Helena er í risastóru hlutverki í sóknarleik íslenska liðsins og er með 16,3 stig, 8,0 fráköst og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrstu þremur leikjum íslenska liðsins.

Hún er í 3. sæti í stoðsendingum, í 17. sæti í stigaskori og í 18. sæti í fráköstum. Hún er aftur á móti í toppsætinu í tveimur tölfræðiþáttum.

Helena er vissulega að gefa fullt af stoðsendingum en hún er líka að taka mikið af skotum sjálf. Helena hefur nefnilega tekið 20,7 skot að meðaltali í leik eða meira en allir aðrir leikmenn undankeppninnar.

Helena er í 3. sæti yfir flest tekin þriggja stiga skot (7,7 í leik) og í 5. sæti yfir flest tekin tveggja stiga skot (13,0). Þá hafa bara fimm leikmenn Evrópukeppninnar tekið fleiri vítaskot.

Helena er sú eina í undankeppninni sem hefur tekið yfir tuttugu skot í leik en næst henni kemur spænski miðherjinn Sancho Lyttle með 19,5 skot í leik. Í þriðja sæti eru síðan Lettinn Anete Jekabsone-Zogota og Belginn Emma Meesseman jafnar með 18,0 skot tekin að meðaltali í leik.

Hittni Helenu hefur ekki verið góð en aðeins 16 af 62 skotum hennar hafa ratað rétta leið sem gerir aðeins 25,8 prósent skotnýtingu. Helena hefur aðeins nýtt þrettán prósent þriggja stiga skota sinna (3 af 23).

Helena er líka sá leikmaður sem hefur fiskað flestar villur í keppninni eða 9,3 villur í leik. Helena hefur fiskað meira en eina villu meira í leik en sú í öðru sætinu sem er Hvít-Rússinn Yelena Leuchanka sem hefur fiskað 8,0 villur að meðaltali á mótherja sína.

Það er hægt að sjá tölfræði Helenu í fyrstu þremur leikjum íslenska liðsins með því að smella hér.

Íslenska kvennalandsliðið mætir Ungverjalandi í Laugardalshöllinni klukkan 19.30 í kvöld og þar verður Helena örugglega áfram í mjög stóru hlutverki hjá íslenska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×